Friday, December 29, 2006

Búin að lifa jólin af, þá eru bara áramótin eftir
Það verður að viðurkennast að ég er ekki mikið jólabarn. Mér leiðist alveg ógurlega þetta jólastúss allt saman. Verst þykir mér þó umferðin og það að geta ekki einu sinni verslað í matinn án þess að það sé brjálað að gera. Aðfangadagur sjálfur er ágætur og var það líka núna. Maturinn var góður en ég er hrædd um að ég sé orðin gamalmenni eða slæm í meltingarfærunum því ég var hreinlega að drepast í maganum eftir matinn, þrátt fyrir að hafa borðað minna en undan farin jól.
Sem dýraeigandi og hestamaður er ég ekki hrifin af flugeldum. Áramótin sjálf og þrettándinn eru í lagi. Þá er hægt að gera viðeigandi ráðstafanir og koma í veg fyrir að dýrin fari sér á voða. Það sem er mun verra eru krakkaskrattarnir sem eru skjótandi upp flugeldum í tíma og ótíma. Það er alveg sérstaklega gaman að vera á hestbaki og fá næstum því rakettu í rassgatið. Hross eru almennt ekki hrifin af því. Hversu harkalega þau bregðast við er mismunandi en menn hafa slasast og hross horfið í kjölfarið. Frá 28. des. til 15. jan. má eiga von á því að einhverjir vitleysingar séu að skjóta upp flugeldum. Já, það er ekki fyrr en um miðjan janúar sem hægt er að vera nokkuð viss um að allir séu búnir með birgðarnar. Er þetta mjög hvimleitt.
Ég hef lítið bloggað undan farið og eru tvær ástæður fyrir því. Annars vegar hef ég verið alveg hrikalega busy í hesthúsinu og eftir alla þessa útiveru er ég bara frekar þreytt þegar ég kem heim og get lítið annað gert en að horfa á sjónvarpið og sofna í sófanum. Hin ástæðan er að það er verið að breyta blogginu sem ég er áskrifandi hjá. Það er búið að vera að hvetja mig til að skipta í á annan mánuð. Mér hefur ekki litist á það, enda lítið fyrir breytingar. Ég lét hins vegar til leiðast núna, enda orðið vesen að komast inn á síðuna og er þetta því fyrsta færslan mín á nýja kerfinu.
Annars er lítið að frétta af mér. Ég át ekki á mig gat um jólin af þeirri einföldu ástæðu að meltingarfærin leyfðu það ekki. Ég er samt búin að hafa það gott og var mikið fegin þegar aðfangadagur rann upp og brjálæðið var búið.
Gríma virðist hafa það betra en það reynir ekki almennilega á það fyrr en ég fer á bak og þá þarf klára að járna fyrst. Það verður líklega gert á morgun. Það er búið að járna Röskvu og ég er byrjuð að "temja" hana. Við erum búnar að fara nokkrum sinnum í gerðið, einu sinni með hnakk og það hefur gengið vel. Ég ætlaði ekki að fara á bak fyrr en væri búið að raspa tennur en dýralæknirinn sveik mig um það í dag, djöf... Svo finn ég ekki snúrumúlinn minn. Tékkaði hvað nýr myndi kosta. Tæpar fjögurþúsund krónur, takk fyrir. Ég er búin að eyða svo miklum peningum í hrossin í þessum mánuði að það kemur ekki til greina að kaupa þennan snúrumúl. Dömurnar verða bara tamdar án hans. Tamdi hross hér áður fyrr án hans og hlýt að geta gert það aftur. Það er reyndar töluvert síðan að ég tamdi hross síðast. En hva! Það hlýtur að reddast. Annars byrja ég bara nýja árið eins og það síðasta, á slysadeildinni.

|

Sunday, December 17, 2006

Vika til jóla
Já, tíminn líður. Ég er búin að vera rosa myndarleg húsmóðir og baka fimm tegundir af smákökum, hvorki meira né minna. Tímon, kisustrákur, tók mikinn þátt í bakstrinum, þótt ekki sé hægt að segja að það hafi verið mikil hjálp í honum. Það þurfti að passa að hann færi ekki með hausinn ofan í skálina með ég var að þeyta eggjahvíturnar. Hann reyndi ítrekað að leika sér með kökurnar, bæði fyrir og eftir bakstur. Honum tókst líka að henda helling af kökum niður á gólf sem ég var að kæla við gluggann. Hann var ekki vinsæll þá. En annars tókst baksturinn mjög vel, meira að segja sörurnar sem ég hef aldrei bakað áður þótt ég hafi átt uppskriftina í nokkur ár.
Það gengur bara vel í hesthúsinu. Gríma má fara út á morgun. Ég er spennt að sjá hvernig hún hefur það. Folöldin eru orðin mjög sjálfstæð. Jafnvel þótt tvö þeirra eigi mæður í húsinu, gæti þeim ekki staðið meira á sama. Það verða vonandi nokkrar dömur járnaðar í vikunni. Þá get ég farið að temja, hehe. Ég geri ráð fyrir að sækja Glóey í vikunni. Þá verður allt mitt komið í hús.
Það eru enn nokkrar jólagjafir eftir. Vonast til að fá hjálp frá "Tvibbanum" með það mál. Ég er í þvílíkum vandræðum með einn aðila að það hálfa væri nóg. Og fyrst ég er að tala um jólagjafir, þá vil ég taka það fram að ég ætla bara að gefa mínum nánustu og aðrir fá bara jólakort. Ég vona að það fari enginn að gefa mér gjöf, sem ég á ekki von á. Viðkomandi fær alla vega ekki gjöf til baka, bara svo það sé á hreinu.
Annars hef ég voða lítinn tíma til að blogga. Veit ekki hvenær ég læt heyra í mér aftur.

|

Friday, December 15, 2006

Bráðum fer að hækka sól...
Hef bara ekkert haft tíma fyrir netið. En ég held að allt sé LOKSINS á réttri leið.
Gríma var komin á síðasta séns. Dýralæknirinn sagði að ef hún væri ekki skárri næst þegar hann kæmi þyrftum við að "skoða" framhaldið. Mér leist ekkert á það. En hún sá að sér þessi elska og þegar dýralæknirinn kom í gær var hún mun betri. Svo hún fékk enn einu sinni bólgueyðandi, þrjá daga í stofufangelsi í viðbót en síðan má hún fara út og ef allt verður í lagi, þá má fara á bak milli jóla og nýárs. Ég er svo fegin.
Það er búið að ljúka megninu af jólagjafakaupunum. Búin að skrifa jólakortin, á bara eftir að henda þeim í póst. Norsarinn kemur 18., "Tvibbinn" líklega 20. og Parísarbúinn kemur fljótlega líka, man ekki alveg þá dagsetningu. En það er alltaf gott að fá góðan félagsskap.
Það er líka búið að redda nýrri eldavél. Já, eldavélin dó núna um daginn, löng saga. Það er alla vega búið kaupa og tengja nýja eldavél. Það var nú allt sem þurfti, að vera eldarvélalaus yfir jólin. Frystirinn er líka búinn að taka út sinn árlega dauðdaga. Ísskápurinn/frystirinn er jafn gamall og ég, það minnsta. Síðast liðin ár hefur frystirinn dáið stuttu fyrir jól. Það er kannski í einhverju sambandi við það að hann er ekki affrystur reglulega. Hann er alla vega búinn að deyja og lifna aftur við þetta árið svo ég er vongóð um að hann verði í lagi yfir jólin. Uppþvottavélin er líka að hóta einhverri uppgjöf, enda jafn gömul og eldavélin, en það er ekki svo hundrað í hættunni nema að vaskurinn stíflist.
Já, það er mikið búið að gerast undan farna daga en ég held að allt sé á réttri leið. Og svo fer að styttast í vetrarsólstöður og þá fer vonandi sólin að hækka á öllum sviðum.

|

Sunday, December 10, 2006

Mörkin milli lífs og dauða
Ég var mikið á ferðinni í dag. Ég var að sækja folöld í Leirár- og Melasveit. Naut ég góðs stuðnings við það og vil ítreka þakkir fyrir. Að því loknu fór ég að sækja hrossin á Kjalarnesinu.
Þegar ég var á leiðinni upp eftir lenti ég fyrir aftan bíl sem keyrði mjög hægt. Það var ómögulegt fyrir mig að komast fram úr með hestakerruna og fljótlega var komin röð fyrir aftan mig. Þegar við erum að koma í Kollafjörðin sé ég í hliðarspeglinum að bíll tekur sig út úr röðinni og byrjar að fara fram úr. Mér varð það fljótlega ljóst að hann sá ekki bílinn fyrir framan mig og taldi að ég væri fremsti bíll. Ég hægi á mér eins hratt og ég get til að hann komist inn í röðina fyrir framan mig því það er umferð að koma á móti. Hann hins vegar gefur í og ætlar sér að fara fram úr sleðanum sem var fyrir framan mig. Ég ýki ekki þegar ég segi að það hafi verið metra spursmál að hann hefði lent framan á bílnum sem kom á móti. Hann rétt náði að komast fram fyrir sleðan og mér stóð ekki á sama. Ég hélt að ég væri að verða vitni að banaslysi.
Þegar ég er á leiðinni til baka sé ég að margir bílar sátu fastir sitt hvorum megin við Þingvallaafleggjarann. Þegar ég nálgast sé ég blikkljós neyðarbíla, bæði á staðnum og á leiðinni á staðinn. Það vita það ekki allir en það er hægt að læðast bakdyramegin að hesthúsahverfinu, leiðina sem farið er að listflugvellinum. Þú þarft að keyra leið sem er strangt til tekið reiðleið en er hægt er að laumast á bílnum. Svo ég gerði það til að þurfa ekki að bíða með hrossin í kerrunni. Þegar ég kom í hesthúsið sá ég blikkljósin upp á veginum. Enn voru fleiri neyðarbílar að koma. Ég var viss um að það hefði orðið banaslys.
Í hesthúsinu eyddi ég ótrúlegum tíma í að horfa á folöldin sem ég hafði verið að sækja og hvernig þeim samdi við hvort annað og við folöldin sem voru komin inn. Ég var heilluð af þessu ungviði sem var að taka nýtt skref í lífsbaráttunni. Var í fyrsta skipti að sjá almennilega skapgerðina í þessum litlu greyjum og ýmislegt kom á óvart.
Það er stutt milli lífs og dauða. Ætli sá sem ég sá fara fram úr hafi áttað sig á því hvað hann var nærri því að deyja? Ætli sleðinn hafi áttað sig á því hvaða hættu hann var að skapa með því að keyra svona hægt? Ég efast um það.
Ég fæ alltaf sting í hjartað þegar ég sé sjúkrabíl með sírenur. Ég veit að fólk deyr á hverjum degi en sjúkrabíll gerir það einhvern vegin nærtækt og sýnilegt. Sjúkrabíll þýðir líka von, viðkomandi gæti lifað
Ég var lengi upp í hesthúsinu og missti af fréttum, en ég sá það á netinu að það hafði maður dáið í slysinu. Daginn sem ég var að ná í ræktunina mína, framtíðina, var einhver að deyja, rétt hjá mér. Hversu miklu munaði að það hefði verið ég?
Lífið er viðkvæmt og hverfullt. Eina stundina er hjartsláttur og andartaki síðar er hann farinn.

|

Friday, December 08, 2006

Bráðum koma blessuð jólin...
Ég er aðeins byrjuð að undirbúa jólin. Fékk alveg sjokk. Það var allt í einu kominn 5. desember og ég ekkert búin að gera. Núna er ég búin að kaupa nokkrar jólagjafir og pakka inn. Dreif líka í að baka tvær sortir af smákökum. Þetta er allt að koma.
Gríma mín er enn hölt. Er ekki ánægð með hvað þetta tekur langan tíma. En dýralæknirinn er bjartsýnn og vonar það besta. Hún alla vega færir þungan yfir á fótinn til að hvíla heilbrigða fótinn. Það hlýtur að vera góðs viti.
Svo ætla ég að kippa inn fleiri hrossum á sunnudaginn. Get varla beðið. Veit ekki hvers vegna ég er svona spennt. Fyrst til að byrja með þýðir þetta bara meiri skítmokstur. Ég verð bara að vera dugleg að byrja að temja ungu mútturnar sem eru á Kjalarnesinu. Þær eru búnar að leggja aðeins af í hagleysinu. Ég fer samt annan hvern dag með hey handa þeim, þær mega nú ekki horfalla.
Ég má hins vegar ekkert vera að því að vera á netinu. Alveg bráðnauðsynlegt að vera í hesthúsinu eins mikið og hægt er.

|

Sunday, December 03, 2006

Öll að koma til
Ég, það er að segja.
Það er búið að járna Áru mína og ég er búin að fara tvisvar á bak. Mér finnst það æðislegt. Ég get ekki beðið eftir að taka inn fleiri hross. Samt er allt sem er að fara að koma inn ótamið eða folöld. Gríma er enn hölt. Hún var spratuð aftur með bólgueyðandi á fimmtudaginn og var kyrrsett, má ekki fara út. Það á að skoða hana aftur á mánudaginn. Vona að hún verði eitthvað skárri greyið mitt.
Ég er ekki alveg komin í stuð fyrir jól enn þá. Finnst allt í lagi að það sé farið að spila jólalögin og ég jafnvel syng með. Ég syng alveg ágætlega, hvað sem sumir segja. Ég veit ekki alveg hvort ég eigi að baka eitthvað fyrir jólin. Mér finnst gaman að baka en smákökurnar eru ekki mikið borðaðar. Ég spái aðeins í þetta. Nenni ekki að fara í þessa umferð að versla. Alveg óþolandi hvað það er mikil umferð fyrir jólin. Mig langar mest að flytja bara í hesthúsið og fela mig þar fram yfir jól. En það gengur víst ekki alveg.

|