Sunday, February 25, 2007

Hestamennskan
Ég var búin að tilkynna hátíðlega að ég ætlaði að taka þátt í vetraruppákomunni í hestamannafélaginu mínu núna um helgina. Það virtist ekki ætla að takast þrautalaust. Blessuð daman sem ég ætlaði að keppa á missti nebbla skeifu í vikunni. Það varð því lítið um æfingar. Hún var loks járnuð á föstudagskvöldið. Ég var ekki tilbúin til að gefast upp og lagði á um kvöldið og fór út á völl. Fyrir þá sem ekki vita þá er ekki talið ráðlagt að járna stuttu fyrir keppni. Hófurinn styttist það mikið að það getur haft áhrif á ganghæfni hrossins. Það skaðar hrossið ekki neitt en það er betra að hrossið sé búið að venjast breytingunni. Það var nú ekki vandamálið hjá dömunni. Hins vegar var hún búin að safna töluverðri orku eftir hvíldina og hékk í taumunum sem aldrei fyrr og teygði hausinn fram og upp. Það er ekki fallegt eða vænlegt til árangurs. Ég ákvað samt að standa við stóru orðin og skráði mig í keppnina. Það gekk ekki sérstaklega vel. Á hæga töltinu ætlaði hún bara að hægja sig niður á fet. Síðan þegar það var frjáls ferð vildi hún hún helst hoppa og skoppa auk þess sem hún hefur ekki gífulega yfirferð enn og við vorum eiginlega bara riðnar niður. Við vorum níu sem kepptum og það voru fimm sem riðu úrslit. Ég var ein af þessum fjórum sem var hent út af. En hún lét aðra keppendur ekki mikið á sig fá, sem ég var ánægð með og þýðir að hún getur virkað inn á velli. Við höldum því bara áfram að æfa okkur og gerum betur næst.
Tamningarnar ganga ekki sérstaklega vel. Ég er bara að deyja úr hræðslu þegar ég er að skríða á bak inn í gerði. Það þýðir heldur ekki endalaust að hanga í gerðinu. Nú er tímabilið að verða hálfnað og ég orðin mjög ósátt við að hafa ekki skilað meiri árangri. Ég tók mig því til og fór að leita að tamningarmanneskju í hverfinu. Held að það sé þess virði að borga fyrir mánaðar tamningu til að komast út úr gerðinu. Ég er búin að finna stelpu sem er lærður tamningarmaður og getur líklega tekið þær að sér um miðjan næsta mánuð. Þangað til ætla ég að vera duglega að teyma þær. Það kennir þeim á beislið og venur þær við umhverfið. Ég er mun sáttari eftir að hafa tekið þessa ákvörðun. Ég dreif mig líka í að taka Ísold með mér í taum í gær. Hún reyndist feta í fótspor móður sinnar og teymdist mjög vel miðað við fyrsta skipti í hendi. Ég er hrædd um að Röskva verði ekki svona samvinnuþýð. Ég reyndi að teyma hana í hendi hérna um árið og hún sleit sig lausa og hljóp heim. Hún tekur líka stungur í taum sem er ekki vinsælt. En það verður að reyna. Ég sakna Grímu. Þetta væri mun auðveldara ef ég hefði hana, þótt Glóey hafi staðið sig vel í gær.

|

Sunday, February 18, 2007

Foreldrar
Eftir því sem ég verð eldri þeimur þakklátari verð ég fyrir foreldra mína. Þegar ég heyri um allt sem hefur komið fyrir fólk í barnæsku þá sé ég hvað foreldrar mínir hafa passað vel upp á mig. Ég hef til dæmis aldrei skilið hvernig fólk getur verið misnotað af einhverjum "vinum fjölskyldunnar" sem eru mikið inn á heimilinu. Þegar ég var barn var ég einu sinni sett í pössun hjá "ókunnugum". Það var svo sérstakt að ég man það enn, þótt ég hafi verið þriggja ára. Þegar ég fór að tala um þetta við mömmu, fyrir ekki löngu síðan, vissi hún alveg um hvað ég var að tala. Í þetta eina skipti var ég sett í pössun hjá henni Gróu, sem var gift bróður afa. Vil taka það fram að þetta var yndislega kona og var þessi pössun góð lífreynsla og hef ég ávalt minst hennar Gróu með hlýhug síðan. Tilefnið fyrir pössuninni var að móðuramma mín dó og foreldrar mínir, systur og föðurafi og amma voru öll í jarðarförinni. Ég þurfti heldur aldrei að fara af heimili mínu og skorti aldrei neitt.
Ástæða þessarar hugleiðingar er Breiðavíkurmálið og öll hin sem eru að koma upp. Ég ætla ekki að gera lítið úr því sem kom fyrir þetta fólk eða réttlæta það. EN. Þetta fólk átti foreldra. Það hefur verið einhver ástæða fyrir því að þessi börn voru send á þessa staði og líklegast áttu þau það öll sameiginlegt að foreldrar þeirra hafa ekki verið að standa sig í stykkinu. Ég held nefnilega að það sé allt of mikið um það að foreldrar séu ekki starfi sínu vaxnir.
Það er ekki að skylda að eiga börn. Fólk ætti ekki að eiga börn nema að það virkilega langi til þess og geti séð um þau.

|

Undarleg flensa
Á föstudaginn var ég eitthvað voðalega þreytt og ræfilsleg. Hafði ekki orku í neitt. Var líka tilkynnt að ég væri hvítari en kríuskítur. Um kvöldið sofnaði ég fyrir miðnætti fyrir framan sjónvarpið. Það tók ekki betra við á laugardeginum. Ég vaknaði snemma því einn heimilisköttinn vantaði þjónustu. Ég veit ekki hvernig mér tókst að standa í lappirnar því mig svimaði svo. Ég skreið því snarlega aftur upp í rúm. Klukkan ellefu gat ég bara ekki legið lengur í rúminu. Mig svimaði töluvert en átti auðveldara með að komast á milli. Þegar ég taldi mig svo ökufæra lufsaðist ég upp í hesthús. Það var yndislegt veður og mig dauðlangaði á hestbak. Ég ákvað samt að það væri ekki sniðugt því jafnvægið var ekki upp á sitt besta, ég datt næstum á hausinn í taðþrónni með hjólbörurnar. Ég leyfði því hrossunum að njóta þess að vera úti og kom sjálfri mér á kjaftatörn enda ekki til neinna stórræðra. Í dag, sunnudag, virðist ég mun hressari og þessi undarlega flensa líklega liðin hjá. Ég ætla því að reyna að komast á hestbak, þótt veðrið sé ekki eins fallegt í dag.

|

Thursday, February 15, 2007

Alveg brjálað að gera í hrossaþjálfun
Ég er nebbla með alveg heil tvö hross sem ég er að ríða út á.
Það var stefnan fyrir veturinn að þjálfa Áru með það fyrir augum að taka þátt í vetraruppákomunum í hestamannafélaginu. Það eru lítil töltmót með frjálslegu sniði. Ég gerði ráð fyrir að fyrsta mótið yrði um miðjan febrúar og ætlaði ég að taka þátt. Hjartsláttartruflanir hafa valdið því að ég hef ekki verið jafn öflug í útreiðunum og ég ætlaði mér svo ég var eiginlega búin að afskrifa fyrsta mótið. Svo sá ég í gær að fyrsta mótið er 24. feb. Það þýddi að ég hefði tíu daga til að herða á þjálfuninni fyrir mótið. Hrossið er komið með ágætis þol en töltið hefur ekki verið til að hrópa húrra fyrir. Í gær fór ég svo með dömuna inn í gerði í fimiæfingar og svo á völlinn. Það gekk bara svona líka ótrúlega vel. Svo ef þetta gengur svona næstu daga þá ætla ég bara að taka þátt í mótinu. Ég á nú ekki von á verðlaunum, þetta snýst meira um það að halda stefnunni og hætta ekki við.
Ég veit ekki hvað ég á að segja með hitt hrossið. Hún er 16 vetra, búin að eiga folöld síðastliðin þrjú ár og er snar-geðveik. Ég fór með hana í gerðið í dag. Það gekk ágætlega inn í gerðinu. Það var náttla taglsláttur og dálítil fýla en hún gerði það sem hún átti að gera. Tók reyndar rosa tíma að fá hana til að fella makkann, hún vill vera með nasirnar upp í loft sem er ekki vinsælt en það tókst. Síðan fer ég af baki til að fara út úr gerðinu og loka hliðinu. Þegar ég ætla svo aftur á bak, til að ríða lítinn hring og svo heim í hús, ætlaði hún ganski pent ekki að hleypa mér á bak. Ég gaf mig samt ekki með þetta mál og hafði mig í hnakkinn. Þá reynir hún að rjúka af stað og ég hangandi í taumunum, búin að flækja mig í faxinu og písknum og öllu. Veit ekki hvernig ég náði að stoppa hana og greiða úr flækjunni en það hafðist með herkjum og hjartaflökti. Síðan reið ég uppspenntri og taumþungri, þriggja barna móður heim í hús.
Það er ekki það að ég sé ekki að fylgjast með því sem er að gerast í samfélaginu og ég hef ákveðnar skoðanir á því en ég bara nenni ekki að hnoða það saman í ritað mál. Þetta er bara allt og niðurdrepandi til að gefa því þannig tíma einmitt núna.

|

Wednesday, February 14, 2007


Nýji "litli maðurinn"

Þetta er Tímon, sem er alveg búinn að stela úr mér hjartanum. Mútta er að spyrja hvort við eigum ekki að fara að hleypa honum út. Mér líst ekkert á það. Er svo hrædd um að það verði keyrt á hann. Veit að hann hefði mjög gaman af því að fara út en mér finnst þetta erfið tilhugsun. Ég vil að við hreinlega flytjum upp í bústað í sumar og hann fái að fara út þar.

|

Sunday, February 11, 2007


Hott, hott á hesti

Já, góðir hálsar, ég er ekki af baki dottin. Bæði í bókstaflegri merkingu og ekki. Ég er búin að vera að skríða á bak, bæði í reiðtúra og á tamningarhrossin inn í gerði. Þótt hjartað hafi skoppað á ýmsa staði þá hef ég haldist á baki. Ég ætla að reyna þetta áfram, jafnvel þó að ég verði inn í gerði á tryppunum í allan vetur. Það er betra en að láta þau standa. Annars er ég alveg hrikalega ánægð hvað slysafolaldið mitt er með mikið fax og þar sem ég kemst ekki inn á Flikr síðuna mína ætla ég að reyna að troða inn mynd hérna sem ég tók á nýju myndavélina. Þetta gekk reyndar ekki alveg eins og ég ætlaði en what the hell.

|

Thursday, February 08, 2007

Mamma og megrunin
Ég held að að ég hafi sagt það áður að mæður eru furðulegt fyrirbæri. Allir eiga eina. Allir elska mömmu sína, meira að segja þeir sem hata mömmu sína elska mömmu sína.
Mamma mín var þrjátíu og sjö ára þegar hún átti mig. Hún segir reyndar alltaf að hún hafi verið þrjátíu og sex ára, sem hún var tæknilega, það voru jú ellefu dagar þar til hún átti afmæli. Ég verð þrítug á þessu ári, sem ætti að segja ykkur eitthvað um af hvaða kynslóð móðir mín er. Ég á afmæli 19. júlí og eftir 19. janúar segist ég "verða þrítug á árinu" ef einhver spyr hvað ég er gömul. Móðir mín er af þeirri kynslóð sem mátti ekki verða kalt því þá yrðu þau veik. Það að þurfa að smitast af einhverjum var algjörlega framandi hugtak. Ég þurfti í alvöru að sitja inn á læknastofu og heyra sögu á því hvernig hún fékk asma af því að gleypa kalt loft. Núna veit móðir mín að flensa smitast en ég er samt ekki alveg viss um að hún "viti" það nákvæmlega. Pensilín var líka nokkuð nýtt fyrirbæri og allra meina bót. Móðir mín er heldur ekki alveg búin að átta sig á því að það eru bæði til veirusýkingar og bakteríusýkingar og pensilín læknar ekki veirusýkingar. (Ég vona innilega að ég sé ekki að rugla þessu saman og að gera mig að fífli. Hehe.)
Veit ekki hvort þið munið það en ég er búin að vera í megrun, síðast liðið ár. Það eru nú ýkjur. Ég er búin að vera í megrun, með hléum, síðast liðið ár. Á þessu ári er ég búin að léttast um 22.2kg. Ætlunin er að léttast meira á þessu ári. Langtímamarkmiðið er að ná af mér þessum fjörtíu kílóum sem ég bætti á mig. Löng saga sem ég ætla ekki að fara út í en haustið 2000 var ég sem sagt fjörtíu kílóum léttari en ég var í lok janúar á síðasta ári. Þyngdin hafði náð sögulegu hámarki og ég ákvað að nú væri annað hvort að duga eða drepast, bókstaflega. Ég ákvað að drepast ekki úr offitu og er mjög sátt við þá ákvörðun núna.
Mamma ákvað að fara í megrun með mér. Hún þurfti að missa svona fimm kíló sem hún hafði bætt á sig eftir að hafa hætt að reykja. Hún náði þeim af sér í rólegheitum. Hún var auðvitað ekki í jafn strangri megrun og ég. Svo bætti hún á sig tveimur kílóum aftur. Nú skilur hún ekkert í því hvers vegna ég held áfram að léttast en ekki hún. Það stendur kannski í einhverju sambandi við það að hún vill helst fá sér ís eftir matinn á hverju kvöldi. Hún hlustar ekki á það sem ég reyni að ráðleggja. Nú er hún farin að tala um einhverja þarmahreinsun sem er búið að vera að tala um. Hún hefur virkilega verið eitthvað skrýtin líffræðin hérna áður fyrr. Það að líkaminn brenni fitu til að viðhalda sjálfum sér og þannig léttist fólk virðist ekki falla í góðan jarðveg hjá múttu. Ég veit ekki alveg hvað ég á að segja. Þarmahreinsun eða tveggja daga svelti er ekki inn í myndinni. Við höldum áfram í okkar sérstöku sambúð. Það gengur ótrúlega vel þrátt fyrir kynslóðabilið og mismunandi líffræðikennslu.

|

Friday, February 02, 2007

Lífið og tilveran
Já, ég hef ekki verið mjög duglega að blogga undanfarið. Ég hef svo sem verið komin á flug með eitthvað sem væri gaman að blogga um en svo hefur það ekki farið lengra. Ég hef bara ekki farið á netið af neinu viti. Núna sit ég og hlusta á disk með fjórum norsurum, helvíti góður, sumir kannast við hann, hehe. Kannski ég komi einhverju frá mér núna.

Hækkandi hitastig af mannavöldum.
Var það einhverntímann spurning? Það er bara allt að fara til helvítis. Ef þetta er ekki ástæða til að eignast EKKI börn þá veit ég ekki hvað. Ég er þá löglega afsökuð, ef einhver spyr.
Síðan segja vísindamenn að það sé ekki spurning hvort heldur hvenær kemur heimsfaraldur. Ef það verður ekki fuglaflensa, þá verður það eitthvað annað. Ég held að náttúran sé að gera allt sem hún getur til að drepa okkur. Við erum líka orðin allt of mörg og erum hreinlega að eyðileggja plánetuna. Það eru alltaf að koma upp nýjir sjúkdómar. Bæði vegna þess að við erum farin að ná hærri aldri og vegna þess að við erum farin að troða okkur inn á jarðsvæði sem við höfum ekkert erindi á. Það er til fullt af veirum sem eru bráðdrepandi og smitandi, við höfum bara ekki komist í tæri við þær. Verst er að þessar veirur fara ekki í manngreiningarálit. Það er bara happa glappa hvort þú lifir þær af eða ekki. That sucks.

Tamningar á hrossum.
Ég hringdi í SS og þeir eru ekki að taka við hrossum. Það er alveg ógrynni af hrossum til sölu en enginn sem óskar eftir ættlausri, ótamdri truntu, skrítið!
Ég tók mig því til og fór aftur með dömuna í gerðið og lét hana hlaupa þar til hún hætti að vera með stæla og skellti mér svo á bak. Það gengur ágætlega inn í gerði en ég fór út úr gerðinu í gær og fetaði heim í hús. Það hafðist en hún lætur umhverfið mjög á sig fá. Ég er ekki spennt fyrir því að fara í reiðtúr. Ég veit ekki hvað ég kem til með að gera í þessu máli.
Ég var líka rosaleg hetja og fór á Ísold inn í gerði. Við fórum að vísu ekki upp af fetinu en það gekk mjög vel. Þið vitið ekki hvað ég var með hjartað í buxunum. Það verður fróðlegt hvort ég lifi veturinn af eða ekki.
Það gengur ágætlega með Áru líka. Síðustu reiðtúrar hafa gengið vel. Glóey er líka öll að koma til. Kíkti á Grímu um daginn og hún var ekki hölt að sjá. Verður vonandi orðin þokkaleg eftir mánuð í viðbót. Ég hef krosslagða fingur.

Söngvakeppni - söngvarakeppni
Sáuð þið síðustu tvo þætti af forkeppninni í eurovision? Þvílík hörmung. Er þetta virkilega það besta sem íslenskir lagahöfundar hafa upp á að bjóða? Ég er farin að örvænta. Ef það kemur ekki eitthvað skítsæmilegt á morgun þá hef ég ekki hugmynd um hvað ætti að senda. Það voru tvö ágæt lög í fyrra, lagið sem vann, já sigurlagið var virkilega eitt skásta lagið í keppninni, og svo lagið með Regínu, sem ég man raunar ekki hvað heitir. Vildi að við gætum sent það núna.
Síðan er X-factor byrjaður. Það er annar eins hroðbjóður. Ellý og Palli voru ekki að muna að þetta er fjölskyldusjónvarp. Flestir þátttakendur eru ekki spennandi. Ég ætla nú ekkert að fara að skíta í þetta fólk, ég er bara ekki hrifin. Nema litla stelpan virðist vera góð.

Núna er byrjað síðasta lagið á disknum. Ég fæ alveg gæsahúð þegar Kurt Nilsen syngur. Hann var norska idolið og heimsidolið. Ekkert smá góður, og þeir raunar allir sem syngja á þessum disk. Norsarinn minn verður kannski svo almennileg(ur) að fræða ykkur meira um hann. Ég mæli eindregið með honum.
Ég læt þetta duga í bili. Kannski verð ég duglegri á næstunni en ég lofa engu.

|