Sunday, April 29, 2007

Vibba vindur
Hvaða helv... rokrassgat er þetta? Ég er gjörsamlega að gefast upp á þessu. Er búin að vera ógjó duglega að ríða út en öllu má nú ofgera. Fékk algjörlega nóg í gær. Fór í einn reiðtúr og nennti svo ekki meir.
Fór hins vegar á Ræktun 2007 í Ölfushöllinni um kvöldið og varð alveg upprifin. Mikið af glæsihrossum og miklum tilþrifum. Varð alveg veik, eins og alltaf þegar ég horfi á sýningar og keppnir. Þetta er jú markmiðið með ræktun og þjálfun. Ég er alltaf á leiðinni með mín hross í svona. Ef það myndi nú gerast...
Ætli ég reyni ekki að sjá kompás í kvöld. Er búin að vera að reyna að horfa á þetta á netinu og sé þetta ekki neitt voðalega vel. Ekki að ég ætli að fara að mæla þessu bót en hafið þið séð höggin sem hross veita hvort öðru á hverjum degi úti í gerði eða haga? Það sem er sýnt gerast á þessu myndbandi skelfir dýrið en ég efast stórlega að þetta hafi valdið hrossinu neinum líkamlegum skaða. Mér fannst verra mál að sjá myndir af folöldum sem eru í húsum gamla Fáks við Bústaðarveg. Það var kært til dýraverndunarnefndar og þeim fannst þetta ekki neitt alvarlegt mál. Mér þykir verst hvað lögin eru léleg og lítið hægt að gera.
Vil samt benda fólki vinsamlegast á að það að slá til hests er ekki sambærilegt við að slá kött eða hund. Ég slæ í hrossin mín ef þau reyna að bíta eða vaða yfir mig td. Það er ekkert grín ef 350kg skepna virðir þig ekki. Hross hirta hvert annað með því að slá eða bíta. En að standa og berja hross hefur ekkert tamningarlegt gildi.

|

Saturday, April 21, 2007

Ég er á lífi, þrátt fyrir bloggskort
Ég er samt búin að vera sorry, svekt og sár. Ég er bara farin að taka allt svo nærri mér. Ég hef hins vegar ekki legið í sjálfsvorkun.
Röskva og Ísold luku mánaðartamningu sinni fyrir rúmri viku. Ég ákvað að láta þessa tamningu ekki fara til spillis og er búin að fara nær daglega á bak á þeim síðan. Ég er alveg rosalega ánægð með Ísold. Það er auðvitað ekki búið gangsetja hana og ég ríð henni frekar hlutlaust enn þá. En það er allur gangur laus og hún er taumlétt og mátulega viljug. Hefur góða hnakkabeygju og frá mínu sjónarhorni virðist hún hafa ágætis fótalyftu líka. Hún er svona tryppi sem verður að passa að fara ekki of mikið á því það er svo gaman. Röskva er allt annar handleggur eða höfuðverkur. Hún er algjör arfatrunta. Ég svo sem búin að vita það lengi en oh, my god, hún er hræðileg. Hún vill helst lulla. Hún helst illa á brokki og heldur ekkert áfram. Töltið er til staðar og laust en hún heldur auðvitað illa áfram og er svo á framhlutanum. Ef ég læt hana feta þá þarf ég að berja fótastokkinn allan tímann svo hún sofni ekki. Ég er samt ekki alveg tilbúin til að gefast upp og ætla að reyna þjálfa upp einhvern gang eða eitthvað... Hvernig henni tókst að eiga þetta gullfallega afkvæmi með þessar flottu hreyfingar er mér algjörlega hulin ráðgáta.

|

Saturday, April 07, 2007

Life sucks
Ég er ekki í góðu skapi þessa dagana. Wonder why? Ég ætlaði að grafa Tímon á miðvikudaginn og gat það ekki því það er enn frost í jörð. Ég fór svo reyndar í það í dag, betur verkfærum búin, og það tókst. Frostlagið var ekki nema 20cm svo þegar ég bar búin að berja mig niður úr því var eftirleikurinn auðveldur. Ég komst reyndar að því að ég er í mun betra formi núna en þegar ég gróf Nappa fyrir tæpu ári síðan. Fyrir þá sem ekki muna þá er þetta þriðji kötturinn á innan við ári sem er keyrt á fyrir mér. Þetta var mun auðveldara líkamlega í þetta sinn. En ég hef engan áhuga á að halda upp á einhverja páska.
Bró'i er reyndar búinn að vera að gera sitt besta til að reyna að hressa mig við. Tók mig með í tvo langa reiðtúra á föstudaginn langa. Mér veitti ekki af því. Hann fær enn og aftur bestu þakkir fyrir.
Þar sem það var ömurlegt veður í dag og lítið af fólki að sporta sig á hestbaki og í reiðgerðunum, ákvað ég að taka aðeins út folöldin mín. Flottustu hreyfingarnar eru í Emblu, dóttur Röskvu og ósýnds Dynssonar. Ég hef sagt hingað til að hún sé "slysafolald", þ.e.a.s. slys í hausnum á mér. Það skilur enginn hvernig mér datt í hug að rækta undan Röskvu sem hefur stóran truntustimpil á sér. Miðað við byggingu, hreyfingar, lit og faxprýði held ég að hún sé best heppnaða ræktunin mín, alla vega eins og staðan er núna. Þá kemur Gabríel, undan Glóey og Huginn frá Haga. Hann virðist ætla að verða litli ljóti andarungi þessa árs eins og bróðir hans síðasta ár. Hann var með hræðilega ljótan háls fyrst í vetur en er allur að koma til. Hreyfingarnar voru líka flottar og hann hefur það fram yfir Emblu að hann var samvinnuþýðari og fær því plús fyrir geðslag. Þá kemur Viktor, undan Drífu og Ófeigi frá Þórláksstöðum. Hann er virkilega fallega byggður en var ekki að hreyfa sig neitt stórkostlega. Hann var reyndar dálítið tregur að halda áfram svo það gætu leynst meiri hæfileikar þarna. Ísadora, undan Ísold og jörpum fola, er síst í hreyfingum. Hún er náttla slysafolald og því að hálfu ættlaus. Hún er reyndar lík móður sinni og töltir meira en hún brokkar. Það hefur hins vegar ræst úr móðurinni svo ég ætla ekki að gefa hana upp á bátinn strax og líklega verður geðslagið úrval eins og hjá múttu og þá er ég í góðum málum. Og falleg er hún þessi elska og ekki vantar faxið.

|

Thursday, April 05, 2007


Tímon er dáinn

Það var hringt í gærmorgun frá Dýraspítalanum. Það var búið að keyra á Tímon og hann dáinn.

Þetta er svo ósanngjarnt.

|

Monday, April 02, 2007

Kynjaskiptur leikskóli
Ákveðið var að kynjaskipta leikskólanum Bakkaborg eftir að einn drengurinn hafði í frammi ósiðlega hegðun við eina stúlkuna. Í ljósi ungs aldur beggja aðila er talið að hvorugt þeirra hafi hlotið varanlegan skaða af atvikinu. Eftir reynslu síðasta árs taldi leikskólastjórinn víst að það þyrfti að kynjaskipta leikskólanum um miðjan maí en í ljósi þessa atviks var drifið í að skipta upp í tvær deild og verður skólinn rekinn þannig út starfsárið.
"Leikskólinn" Bakkaborg er staðsettur í hesthúsinu mínu á Varmárbökkum. Leikskólabörnin eru folöldin mín plús eitt auka og hefur hópurinn fengið viðnefnið leikskólinn af nágrönnum mínum. Á laugardaginn varð ég vitni að því að hann Viktor minn tók sig til og fór að riðlast á ungu dömunni sem ég á ekki. Með betri fóðrun á seinni árum hafa íslensk hross orðið fyrr kynþroska. Það hefur gerst oftar og oftar að veturgömul tryppi hafi fyljast eða fyljað. Síðasta ári ákvað ég að láta sprauta (daginn eftir pilla fyrir hross) ungu dömuna sem ég var með í húsinu eftir að "sonur" minn fór á hana. Ég ætlaði sko ekki að láta það gerast aftur og því var alltaf ætlunin að kynjaskipta liðinu þegar liði á vorið. Hann er hins vegar ansi fljótur til drengurinn, ekki kastaður fyrr 9. júlí, svo við ætlum ekki að taka neina sénsa.

|

Sunday, April 01, 2007

Góður dagur
Ég átti mjög góðan dag í gær. Að því undanskildu að ég skil ekki þetta verslunarbrjálæði sem á sér stað allar helgar hér í Reykjavíkinni. Mér varð það á að fara út í hagkaup með múttu að kaupa úrbeinað lambalæri og í blómaval að kaupa páskalilíjur. Það var troðið á báðum stöðum.
Ég átti hins vegar góða stund í hesthúsinu. Fór í tvo reiðtúra í ágætu veðri þrátt fyrir sólarleysi. Dömurnar stóðu sig báðar mjög vel sem var mikil breyting frá föstudeginum þegar mér og Áru lenti saman í gerðinu. Ætluðum að halda áfram að gera liðkunaræfingar eins og við vorum búnar að gera tvisvar áður en daman var ekki alveg á því. Við enduðum báðar fúlar og sveittar. Svo í gær tók ég hana stutt inn í gerði, alveg hrikalega þolinmóð og róleg, og það gekk mun betur í þetta sinn. Svo ég var ekkert að hanga þar of lengi og dreif mig bara í stuttan reiðtúr.
Þegar ég kom svo heim hjálpaði ég múttu að klára að undirbúa matinn því stóra systir og dætur voru að koma í mat. Við grilluðum lamblærið sem heppnaðist svona líka agalega vel. Síðan fengum við okkur ostaköku í eftirrétt. Litlu frænkurnar stoppuðu stutt við, enda á þeim aldri að vinir eru miklu meira spennandi en gömlu kerlingarnar í fjölskyldunni. En við eldra settið horfðum á nýju Bond myndina og borðuðum lítil páskaegg. Kvöldið var mjög notalegt í alla staði eins og reyndar dagurinn allur.

|