Thursday, May 24, 2007

Er að koma sumar eða ekki?
Það er frekar brokkgeng þessi sumarkoma. Ég er komin í mikinn sumar fíling. Einn hrossaræktandi birtir myndir af nýfæddum folöldum í gríð og erg. Endurnar eru komnar með unga og synda um í Leirvoginum. Græna grasið potar sér upp þrátt fyrir haglél inn á milli. Nú vantar bara að veðrið sé í samræmi við allt annað.
Ég er hins vegar búin að ofgera á mér skrokknum, einu sinni enn. Farin að fá vibba verk í hægri mjöðmina. Veit ekki hvort að þetta sé nýtt brjósklos, afleiðingar af föllum af hestbaki eða eitthvað annað. Það er eins og allt sé að gefa sig. Ég skil heldur ekki hvernig ég fór að því hérna áður fyrr að vera á hestbaki allan daginn. Núna er ég að skrölta í mesta lagi fjóra reiðtúra á dag og ég er gjörsamlega búin.
Ég er hins vegar búin að handbera á 400kg af áburði. Það er kannski að taka einhvern toll af skrokknum. Ég er allavega búin að bera á Kjalarnesið. Ég er ekki búin upp í bústað. Það kemur á næstu dögum. Síðan þarf ég að fara í að laga girðingar. Ooooo, það er svo leiðinlegt. En þetta kemur allt.

|

Sunday, May 20, 2007

Áframhaldandi upptalning af því sem ég er að gera
Dró mömmu upp í bústað á laugardeginum og okkur varð töluvert ágengt í tiltektum. Mamma innandyra og ég utan. Ég bar líka á hluta af túninu. Þarf að kaupa meiri áburð því ég er þvílíkt að kafbera á. Ég ætla nebbla að reyna að hafa reiðhrossin sem mest upp frá í sumar. Mútta er ekki alveg inn í því plani mínu en hún kemst að því.
En þar sem ég var í töluverðan tíma upp í bústað var lítið gert í hesthúsinu. Bró'i setti út fyrir mig og hringdi í mig til að segja mér að Röskva og Hnoss höfðu brotist út úr stíunni um nóttina og voru búnar að éta allt brauðið sem ég var að þurka í fötu fyrir framan kaffistofuna. Þær höfðu sem betur fer ekki komist inn í hlöðu því þá hefðu þær verið í slæmum málum. Hestar nebbla éta bara fóðurbæti þar til hann er búinn. Það hefur gerst að maginn í hrossinu hafi sprungið, sem leiðir til dauða. Algengari fylgikvilli er hófsperra, sem er alvarlegt en ekki banvænt. En þær komust ekki í fóðurbætinn svo þetta var allt í lagi. Síðan var óvænt pláss fyrir auka hestinn, sem ég er með, í húsi eigandans. Þannig að ég færði Röskvu yfir og þannig að þær voru einar í sitthvorri stíunni.
Síðan í dag, sunnudag, fór ég snemma upp eftir og ætlaði heldur betur að ríða út. Ég vissi að það var spáð rigningu en það var ekki byrjað þegar ég lagði af stað. Ég náði að fara í einn reiðtúr á Röskvu. Hún ákvað að taka eitt hálfvitahopp með mig að þessu sinni. Hún gerði þetta tvo daga í röð við mig um daginn þegar ég var ekki að blogga. Hún er að sýna framfarir á gangi og í beisli og höfuðburði eeen... Ef hún hættir ekki þessum hálfvitahoppum þá veit ég ekki hvað ég á að gera. Eina glætan að selja hana væri ef hún væri dauðþæg, sem hún er ekki meðan hún gerir þetta. Ég er heldur ekki spennt að eiga hross sem getur tekið upp á svona vitleysu hvenær sem er. Síðan byrjaði að helli rigna og ég nennti ekki fyrir mitt litla líf að ríða meira út. Svo ég mokaði undan folöldunum. Þvoði þetta litla sem er eftir af faxinu á Röskvu. Hún er enn að dunda sér við að nudda það af. Kemur í ljós hvort það geri eitthvað gagn. Síðan dró ég undan Hnoss og snyrti á henni hófana. Það byrjaði með látum. Hún ákvað að hoppa aðeins ofan á tærnar á mér. Þegar ég var búin að blóta aðeins og róa mig niður spjölluðum við bara aðeins saman og hvað haldið þið? Ég fékk að draga undan henni skeifurnar án þess að hún hreyfði sig. Ekki nokkurn skapaðan hlut, stóð eins og stytta. Síðan snyrti ég á henni alla hófana og það var sama sagan. Var aðeins tregari að láta taka upp á sér aftur fæturna en þegar ég var búin að taka þá upp var það sama sagan. Ekkert mál. Við enduðum svo dæmið á því að fá ormalyf, sem var heldur ekkert mál. Hún því tilbúin til að fara í sveitina. Ég þarf bara að finna góðan tíma. Bara svona út því að það var enn of snemmt að gefa þá þreif ég skóna mína og bar á þá leðurfeiti. Ég gaf svo frekar snemma og fór heim.
Þegar ég fór svo úr skónum heima komst ég að því að ég var helvíti aum í tánni. Mér fannst eins og ég þyrfti að láta að braka í henni, það kemur iðulega fyrir stórutærnar á mér. Nema hvað núna gat ég ekki látið braka, ég gat ekki einu sinni beygt tánna því ég fann svo til. Ég reyndi svo aftur seinna og þá gat ég beygt hana en ekki látið braka. Ég held að hún sé óbrotin en ég fæ örugglega fallegt mar. Ég hefði kannski átt að kaupa skó með stáltá.

|

Thursday, May 17, 2007

Bréfaklemman aftur komin í gagnið
Kemur í ljós hvað hún virkar lengi.
Gekk gjörsamlega fram af mér í gær. Fór í fjóra reiðtúra og ákvað líka að bera á Kjalarnesið. Já, allt Kjalarnesið. Nei, bara beitilandið mitt. Ekki allt reyndar. Handbar á 80kg. Þurfti að bera áburðinn í fötum upp í móti til að bera á efsta hlutan. Ég var gjörsamlega búin í morgun. Það verður sem betur fer auðveldara að bera á neðri hlutan. Síðan þarf ég að lagafæra girðingar lítils háttar. Það er alltaf nóg að gera í hestamennskunni.
Djöfull var leiðinlegt veður í dag. Ætlaði að bera á túnið upp í bústað og fjarlægja eitthvað af draslinu sem hefur fallið til við framkvæmdirnar. Nennti því ekki fyrir mitt litla líf. Vona að það verði sæmilegt veður um helgina. Verð kannski laus við harðsperrurnar úr vinstri handleggnum þá, sem ég fékk við að halda á fötunni með áburðinum.
Ég fór líka í vikunni að klippa hófana á elskunni henni Kviku. Var búin að draga það lengur en ég ætlaði. En þeir líta vel út núna. Gaf henni líka ormalyf. Það er orðið svo sítt á henni faxið að toppurinn er farinn að ná niður fyrir nasirnar á henni. Mig langar svo að taka hana upp í bústað þegar fer að nálgast köstun og dekra við hana og auðvitað fylgjast með köstuninni. Ég stefni á það. Tók líka Dag í gegn. Gleði og Gríma voru ekki á því að láta ná sér svo ég þarf að taka þær seinna. Gleði hefur alltaf verið röltstygg en Gríma komin í einhverja uppreisn. Þurfti þvílíkt að elta hana um daginn þegar hún átti að fara í myndartöku á Dýraspítalanum. Hún telur líklega að hún sé komin í varanlegt frí. Ó, nei. Hún verður sko trimmuð næsta vetur.
Bréfaklemman virkar enn en ég hef bara ekki þörf fyrir að tjá mig meira í bili.

|

Sunday, May 13, 2007

I,m back!!!
Já, ég læt sko ekki taka mig svona í ra... bara þegjandi og hljóðalaust. Halda kaplinum inni hvað? Litla frænka byrjaði nebbla á þessu og allt í einu komst ég ekki á netið án þess að gera það líka. En það er alveg vonlaust að blogga með einum putta, eins og ég nefndi í fyrri færslu. Og hvað var lausnin á þessu öllu saman? Jú, ég stakk bréfaklemmu undir kapalinn og þannig helst tenginginn. Má ekki banka í þessa hátækni hvað? Þetta er alveg eins og þegar ég missti símann minn í götuna um árið og skjárinn datt út. Þetta var svo agaleg hátækni sem bara þyldi ekki svona meðferð. Eftir nokkra daga í hvíld datt skjárinn svo inn aftur og entist alveg þar rafhlaðan gaf sig og eitthvað fleira. Og það er hægt að laga nettengingu á fjögra ára tölvu með bréfaklemmu. Og hafðu það hátækni!!!
Ég er búin að vera alveg hryllilega duglega að ríða út undanfarið. Ég er því sandblásinn í andlitinu og á litinn eins og tómatur þegar ég kem heim á kvöldin, það er nebbla sól og rokrassgat í höfuðborginni. Þótt allt hafi gengið frekar vel þá tók Röskva sig til og hrekkti mig tvo daga í röð í síðustu viku. Ekki alvarlegt en óþægilegt. Henni finnst hún heldur ekki nógu ljót svo hún er að dunda sér við það að nudda af sér toppinn. Ég veit ekki alveg hvað ég á að gera í því svo ég geri ekki neitt. Ég reyni bara að fara í reiðtúr þegar enginn sér okkur. Annað hvort er ég búin að gleyma truntum fortíðar eða hún er versta hross sem ég hef riðið.
Ég fékk þá brjáluðu hugmynd að keppa næstu helgi í fjórgangi, áhugamannflokki, á Áru. Svona áður en ég skráði mig ákvað ég að láta "taka okkur út" á vellinum. Við vorum svona skítsæmilegar. Við vorum víst alveg ágætar á stökki nema hvað að ég réð ekki neitt við neitt. Hún var bara að hlaupa með mig á vellinum. Ég er ekki viss um að ég skrái mig. Ég sé til.
Flutningur minn í sveitina hefur aðeins tafist. Við mútta erum ekki alveg sammála um hvernig sjónvarp á að kaupa. "Gömlu" sjónvörpin eru að verða úrelt og breiðtjaldsflatskjáir eru að taka við. Við lentum í deilum hvora tegundina ætti að kaupa. Getið hvora ég vil. En ég hef ákveðið að láta undan. Það eru mikilvægari orrustur framundan.
Og þar hætti bréfaklemman að virka svo þetta verður ekki lengra í bili.

|

Saturday, May 12, 2007

Af baki dottin en ómeidd
Það er frekar erfitt að blogga nú orðið vegna lélegs ástands tölvunnar og tengingu hennar við netið. Ég sit því hér og pikka, hægt, með annari hendi því hin er upptekin við að halda nettengingunni í sambandi.
Ég er farin að ríða út eins og herforingi um allar trissur. Við Ára erum búnar að ná saman sem aldrei fyrr. Hún reynir enn að svíkja mig á töltinu (niður í brokk) en hausinn er kominn í betri stöðu og töltið orðið ferðmeira. Ég gerði tilraun til að skeiðleggja Glóey. Það var ekki þrautalaust en ekki vonlaust og ég ætla að vinna meira í því. Meira að segja arfatrunta hún Röskva sýnir framfarir. Það var hins vegar Ísold sem bar ábyrgð á því að ég endaði í götunni. Henni brá eitthvað blessuninni og datt á hausinn með mig og ég endaði á götunni. Þetta var nú lágt fall fyrir en þegar hún var komin á hnéin var þetta lægra en af stól. Þannig að hvorug okkar meiddist og eftir að hafa dustað af okkur rykið héldum við ótrauðar áfram.
Ég hef margt fleira að segja en það tekur svo langan tíma að ég nenni því ekki.

|