Friday, June 22, 2007

Í sveitinni, í sveitinni, þar gott að vera
Þá erum við mæðgur búnar að vera upp í bústað vel á aðra viku og ætlum að vera þar áfram. Við verðum hins vegar að skella okkur í bæinn annað slagið til að þvo föt og fólk. Ég er búin að vera skella upp girðinum út um allt því næst á dagskrá er að sækja hrossin og það þarf að beitarstjórna og læti. Ég ætla ná í dömurnar mínar strax eftir helgina. Þá verða þær búnar að vera í tveggja vikna fríi sem er yfir drifið nóg. Ég ætla líka að ná í óléttuna, hana Kviku. Það er komið nóg gras fyrir alla.
Ég er búin að vera í túristaleik með norðmönnunum sem eru á landinu. Fór með þeim austur að skoða hross og svo var skroppið inn í Þórsmörk, svona í leiðinni. Mér þótti það nú ekki mikið mál. Stóðhestarnir mínir (nú á ég fjóra, það er önnur saga) eru þarna rétt hjá undir Eyjafjöllunum og það leit nú ekki út fyrir að vera langur spotti þarna inn eftir. Ég hef reyndar ekki farið þarna í 15 ár en ég mundi að það voru nokkrar lækjarsprænur á leiðinni og svo náttla Krossá. Við myndum bara sjá hvernig okkur litist á ánna þegar að henni kæmi. Vegurinn reyndist hins vegar ekki alveg jafn greiðfær og ég hélt. Ekki það að ég væri í einhverjum vandræðum að komast þarna yfir á litla burra en við komumst ekki neitt voðalega hratt. Aftur á móti eru skálaverðirnir í Þórsmörk með stóreflis dráttarvél til afnota og var ekkert sjálfsagðara en að lóðsa okkur yfir Krossá þannig að það gekk eins og í sögu og er þetta líklega í fyrsta skipti sem litli burri fékk að sýna og sanna hvurslags torfærutæki hann væri í raun og veru. Norðmennirnir voru mjög ánægðir með ferðina og stórkostlegt útsýnið. Ég verð líka að viðurkenna að ég hafði gleymt hversu mikla náttúrfegurð er að finna á þessu svæði.
Ég verð nú samt að segja að stóðhestarnir mínir eru bara býsna fallegir. Það kemur bara ljós hvort þeir verði merkilegir stóðhestar en ég alla vega sannfærð um að þeir verði fallegir hestar og það er þá alltaf hægt að gelda þá. Ég var komin með pínu efasemdir um alla þessa ræktun mína og hvað ég væri eiginlega að gera en þetta eru almennt laglegustu hross sem ég á. Fór einmitt að kíkja á hin hrossin fyrr í vikunni. Litlu stelpurnar mínar eru algjör krútt og halda sig saman innan um öll þessi stóru freku hross. Dagur, sem er eini geldingurinn sem ég á, og ég keypti sem folald á sínum tíma (ég átti nebbla ekki nóg af hrossum) er bara orðin fallegasta hross. Hann er líka mjög geðgóður og ég er bara orðin spennt að sjá hvernig hann kemur út úr tamningu. Kvika er stóðmeri af guðs náð og hún og Gríma halda sig mikið saman. Það sem verra er, er að Gríma er næstum jafn mikil um sig og Kvika þótt Kvika sé komin ellefu mánuði á leið en ekki Gríma. Það verður mikið átak að grenna hana næsta vetur. Síðan á hún að fara undir Óttar frá Hvítárholti. Ég er búin að bíða lengi eftir að halda henni undir hann. Ég er búin að vera að dást að klárnum í fimm ár.
Jæja, nóg röfl í bili. Það gæti samt verið bið í næstu bloggfærslu. Það fer eftir því hversu mikið ég verð að flýta mér í sturtuferðinni. Nú er nebbla verið að bíða eftir þvottavélinni.

|

Monday, June 11, 2007

Búin að sleppa hrossunum
Loksins, loksins, loksins. Tryppin fóru öll í hagann á laugardaginn. Ég ákvað svo að glápa á úrslit í gæðingamótinu upp í Herði á sunnudaginn og taka svo mánudaginn í að sleppa hryssunum. Nennti ekki að vera á ferðinni í umferðinni á sunnudaginn. Þannig að ég fór í dag, mánudag, kláraði að yfirfara girðinguna og sleppti svo hryssunum. Þær voru mjög ánægðar með að komast í hagann. Ég var ekki ánægði þegar ég fann einn af þessum stóru ógeðslegu sniglum sem eru komnir til landsins. Örugglega 10cm langur og 2cm breiður, oooooj!!! Ég íhugaði að drepa kvikindið enda vopnuð færanlegum rafmagnsgirðingarstaur sem er með stórum járnpinna. Ég hafði mig ekki í það enda ófær um að drepa nokkurn skapaðan hlut. Sá líka lítinn unga sem mamman skildi eftir þegar hún flaug upp. Litla greyið hreyfði sig ekki enda eina ráðið sem hann hafði til að verja sig. Ég þóttist ekki sjá hann og gekk framhjá honum. Hann var ógjó sætur.

Ofnæmið að drepa mig
Ég er alveg að farast úr ofnæmi þessa dagana. Nú eru frjókornin komin ofan á katta-, ryk- og öllin hin ofnæmin sem ég er með. Sá Ophru um daginn og þar var verið að tala um eitthvað dót til að skola út úr nefinu á sér. Ég ákvað því að prófa að skola út úr nefinu á mér. Það var ekki jafn auðvelt og í sjónvarpinu en tókst enga að síður. Ég held bara að það hafi ekki komist svona mikið loft í gegnum nefið á mér í mörg ár. Ég held að ég haldi þessu áfram. En ég verð að muna að taka ofnæmislyfin tvisvar á dag.

Pollyanna
Ég hef lengi vitað það að fara í "pollyönnuleik" sé að reyna að gera gott úr ömurlegum aðstæðum og ég vissi líka að það til saga þar sem þessi stúlka væri í aðalhlutverki. Ég hef hins vegar aldrei lesið söguna. Ég sá hins vegar bíómynd eftir sögunni nú um helgina. Kannski er ég bara svona gömul og væmin en mér fannst sagan bara frekar falleg. Er ekki bara lífsnauðsynlegt að fara stundum í "pollyönnuleik" til að halda sönsum við erfiðar aðstæður?

Frí
Hvað sem öllu öðru líður þá er ég komin í frí. (frá hestunum þ.e.a.s.) Ég ætla að slappa af næstu 7-10 daga. Síðan ætla ég að reyna að vera dugleg og fara að ríða út aftur.

|

Friday, June 08, 2007


Ísadora frá Reykjavík

Hún hvorki fallegust né með flottar hreyfingar en hún er ákaflega lík móður sinni þegar hún var á sama aldri og móðir hennar er að koma frábærlega út úr tamningu. Hún er hins vegar með besta geðslagið. Hún fær því að lifa þessi elska þrátt fyrir að vera slysafang.

Þetta er litla daman á myndinni efst á blogginu. Þar er hún í mesta lagi nokkra klukkustunda gömul.

|


Gabríel frá Reykjavík

Það kemur í ljós hvað verður með þennan. Ekki nógu góð mynd. Hann fær að fylgja Viktori næsta árið. Svo kemur bara í ljós.

|


Embla frá Reykjavík

Þessi er vekur mesta athygli, enda býsna lagleg og flottustu hreyfingarnar. Miklu flottari og fallegri en foreldrarnir.

|


Viktor frá Reykjavík

Ef þetta er ekki fallegasta tryppið. Þessi fær að halda kúlunum að minnsta kosti í ár í viðbót.

|

Wednesday, June 06, 2007

Þetta er nú alveg að verða gott
Nú eru slitnu liðböndin í ökklanum farin að angra mig. Eða réttara sagt eru liðböndin ekkert að gera neitt sem er einmitt vandamálið. Þannig að það er eitthvað í ökklanum bólgið og aumt. Hef bara ekki tíma fyrir þetta. Verkjatöflur í miklu uppáhaldi þessa dagana.
Búið að vera leiðinda veður svo að girðingin er ekki yfirfarin enn. Spurning að fara í það seinnipartinn í dag ef það helst þurrt. Ég nennti bara ekki í gær loksins þegar hætti að rigna.
Annars eru allir tilbúnir að fara út. Búin að gefa öllum ormalyf og fara yfir hófa á tryppunum. Það er stefnt að því að þau fari út næstu helgi. Þau eru orðin illa þreytt á því að þurfa að hanga í þessum stíum stóran hluta sólarhringsins. Ætli fullorðnu dömurnar fari ekki fljótlega eftir það, það er ef girðingin verður komin í stand.
Sýndi einum nágranna mínum Emblu litlu í gær. Það voru sömu viðbrögðin þar og alls staðar. Það skilur enginn hvernig mér tókst að fá svona fallegt tryppi undan Röskvu arfatruntu. En það tókst, einhvern veginn. Þar sem ég tel þetta einskæra heppni og ekkert annað þá ætla ég ekkert að storka forlögunum og reyna þetta aftur. Röskva er ekki á leiðinni í ræktun. Það eru örugglega margir fegnir að heyra það, hehe. Annars var ég að taka myndir af tryppunum um daginn og Embla og Viktor eru áberandi fallegust. Ekki það að hin séu eitthvað ljót. Þetta er ótrúlega fallegur og faxprúður árgangur hjá mér. Nú þarf ég bara að muna hvar ég skildi myndavélina eftir til að ég geti sýnt ykkur þær.
Búin að vera spá alveg heilan helling til að blogga um en eins og alltaf þá er það farið út í veður og vind þegar ég svo sest við tölvuna. Það eru því bara hross og aftur hross.

|

Friday, June 01, 2007

Alveg búin
Skrokkurinn er alveg að farast. Verkurinn í mjöðminni er hættur að vera staðbundinn á einum stað heldur farin að dreifa sér um alla mjöðmina og út í mjóbakið. Það er kannski skárra að hann fari upp heldur en niður. Ef hann fer niður eftir fætinum þá er ég komin með brjósklos báðum megin. Ég nenni því ekki og ég hef bara ekki tíma til að vera að farast úr einhverjum verkjum. Ég er því farin að éta verkjalyf daglega, nokkrum sinnum á dag. Það virkar alla vega í bili. Nú á ég bara eftir að laga girðingarnar á Kjalarnesinu og þá get ég farið að slappa af. Þetta rokrassgat er hins vegar alveg að fara með mig. Ég ég stend nú ekki mikið á Kjalarnesinu í svona roki. Svo er allt svo þurrt að maður er sandblásinn við það að fara í reiðtúra. Það þarf að koma almennileg rigning einn dag til að gróðurinn taki almennilega við sér og síðan þokkalegt veður til að ég geti farið í girðingar.
Annars erum við mútta búnar að vera upp í bústað í tæpa viku. Haldið þið að gömlu þyki ekki bara svona agalega gaman að vera upp frá. Ákváðum bara aðeins að skreppa heim í þvott meðan veðurspáin er ekki góð. En ef ég fer að vera meira upp frá verður lítið bloggað á næstunni.

|