Wednesday, August 22, 2007

Ekki hætt, bara ekki í stuði
Ég er bara búin að vera upp í bústað svo ég hef ekki farið á netið lengi. Þessi mánuður er bara búinn að líða eins og hendi væri veifað.
Snotru, 11 ára gamla heimiliskettinum, tókst að slasa sig. Kom inn drag-hölt. Var ekki samvinnuþýð hjá dýralækninum og beit mig svo svakalega þegar var verið að skoða hana að ég þurfti að fara á pensilín. Það fannst ekki hvað var að henni strax, vegna skapvonsku hjá dýrinu. Þegar hún var ekkert farin að skána eftir fimm daga, fórum við aftur og þá var tekin mynd. Þá kom í ljós að daman var úr lið. Dýralækninum leist ekki á það og fór að tala um að það væri ekki leggjandi á svona gamlan kött að fara í aðgerð, ef þess þyrfti, og þar fram eftir götunum. Ég var nú bara ekki að höndla svona tal, það eru alveg nógu margir búnir að deyja. En sem betur fer var hægt að koma henni í liðinn en þá kom í ljós að liðbandið væri slitið. Þannig að nú er daman í spelku frá mjöðm og niður. Vonandi lagast þetta þannig að liðurinn verði stöðugur. Ef ekki...
Ég er alveg hætt að ríða út og dró undan dömunum nú um helgina. Ég er með þær upp í bústað og ætla að reyna að vera með þær þar þangað til að Gríma fer í skoðun. Hún á að fara til dýralæknisins í byrjun september til að gá hvort hún sé orðin góð í fætinum. Ég setti hana líka undir graðfola sem ég á, bara svona ef hún skyldi vera óreiðfær, ekki það, ég á ekki von á að hún hafi fyljast, hún er svo helv... feit. Alla vega. Ég er að beitarstjórna dömunum því að haginn er að verða búinn og þær eru ekki ánægðar með það. Þvílík fýla og svo horfa þær á mig stórum augum og skilja ekki hvers vegna þær fá ekki að eta þindarlaust. Þær eru reyndar allar hnöttóttar nú þegar en hva!!!
Ég veit ekki hversu dugleg ég verð að blogga á næstunni en ég er alla vega á lífi. Það er víst ekki sjálfgefið, hvað þá í minni ætt.

|

Tuesday, August 07, 2007

Minning
Litla-Björg 17. júlí 2007

Til eru fræ, sem fengu þennan dóm:
Að falla í jörð, en verða aldrei blóm.

Eins eru skip, sem aldrei landi ná,
og iðgræn lönd, er sökkva í djúpin blá,
og von sem hefir vængi sína misst,
og varir, sem að aldrei geta kysst,
og elskendur, sem aldrei geta mæst
og aldrei geta sumir draumar ræst.

Til eru ljóð, sem lifna og deyja í senn,
og lítil börn, sem aldrei verða menn.

|