Tuesday, June 10, 2008

Búin að sleppa!!!
Já, þá eru loksins öll hross komin úr húsinu og upp á Kjalarnes.
Annars hefur það ekki gengið þrautarlaust. Ísadora og Embla fundu sér vini sem gengu lausir í fjallinu. Á laugardaginn síðasta sleppti ég Grímu, Áru og Ísold. Þegar ég kom á Kjalarnesið voru vinkonurnar upp í fjalli og Dagur kominn í girðingu tveimur stórum skurðum í burtu. Þótt byrjað væri að rigna og vindurinn að sækja í sig veðrið ákvað ég að það væri nauðsynlegt að koma hrossunum í rétta girðingu. Ég byrjaði á því að vaða upp í fjall og ná í dömurnar. Síðan fór ég að ná í Dag. Hef ekki hugmynd um hvernig hann komst þangað sem hann var kominn. Ég þurfti að fara í gegnum tvö hlið til að komast með hann niður á veg og ganga með yfir í mína girðingu. Þegar hann var svo kominn á réttan stað voru dömurnar komnar aftur út í fjall. Ég var búin að fá nóg, enda stóð ég varla í lappirnar í vindinum og var orðin þokkalega blaut. Þurfti svo að keyra á 50 í bæinn því það var komin vindhviðuviðvörun og ekki vildi ég tapa kerrunni.
Á sunnudeginum náði ég svo í Kviku. Sem gekk bara mjög vel eins og allt sem að henni snýr. Arkaði svo aftur upp í fjall, tvær ferðir, klyfjuð í bæði skiptin til að loka þessu almennilega þarna uppi. Það gekk svona ágætlega, ekki alveg fullkomlega samt. Náði í dömurnar aftur inn í girðinguna. Nei, nei. Í þetta skipti fór allt til helvítis því Ára, sem ekki hafði hitt dömurnar áður í girðingunni, ákvað að sýna þeim hver réði og hreinlega barði Emblu út úr girðingunni. Ég fór og náði í hana einu sinni enn, og tók Áru aftur með mér í bæinn.
Síðan rúlla ég upp eftir á mánudeginum og dömurnar aftur komnar út úr girðingunni. Svo ég gekk með meira af timbri og drasli upp eftir. Náði í dömurnar, hélt áfram að loka þessu eina helv... horni. Rak alla niður í sumarbeitina, sem ég á eftir að bera á og lokaði þau þar af.
Í dag fór ég svo aftur með Áru upp eftir og í þetta sinn var Hefring litla með í för. Í þetta sinn voru allir á sínum stað. Hefring litla var aðeins tekin á beinið en slapp nokkuð vel og allir voru sáttir þegar ég fór.
Nú er bara að vona að allt gangi vel.

|

Sunday, June 01, 2008

Vantar peninga
Það er alveg hræðilegt hvað allt er orðið dýrt. Ég sé ekki alveg fram á að hafa efni á öllu sem ég ætlaði að gera. Og það er ansi margt sem ég ætla að gera. Auk þess er bóndinn sem hefur haft útiganginn minn ætlar sennilega að hætta. Ég held að ég hefði hvort sem er ekki efni á útiganginum næsta vetur miðað við hvað verð á heyi á eftir að hækka.
Nýjasta planið mitt er að sjá um útiganginn sjálf. Þarf bara að útvega mér hey. Bara segi ég eins og það sé ekkert mál. Held alla vega að það verði ódýrara og þá get ég líka passað upp á hrossin sjálf. Ég er að hugsa um bústaðinn ekki Kjalarnesið. Það er miklu meira skjól og betra veður upp í bústað. Þarf bara yfirfara allar girðingar og ef ég fæ samþykki þá ætla ég að reyna að setja upp skjól með þaki.
En ef ég ætla að sjá um þetta allt sjálf þarf ég líka að sjá um hagagönguna í sumar. Ég er nú þegar komin með fimm hross á Kjalarnesið. Embla er búin að jafna sig í fætinum og hún og Ísadora eru komnar á Kjalarnesið. Þá á ég bara eftir að sækja Kviku og ætla að gera það í vikunni. Hún fer fyrst upp á Kjalarnes og síðan upp í bústað um miðjan júní þegar það er kominn nægur hagi svo ég geti fylgst með henni kasta. Ég verð með slatta af hrossum upp í bústað í sumar og þrjár hryssur fara undir stóðhesta þannig að það verða ekki mörg hross á Kjalarnesinu í sumar. En í haust yrðu þau tíu svo það er eins gott að það verði góður hagi. Ég spurði um verð á áburði upp í Líflandi og fjörtíu kíló kosta 5.500kr. Ég þarf þó nokkra poka þannig að þetta verður dýrt.
Ég pantaði folatoll undir Hruna frá Breiðumörk fyrir Kviku. Lítill, ljótur, klárhestur. Það er eitthvað sem heillar mig en ég er samt með bakþanka. Hann er með hræðilegan byggingardóm. Ég þarf að ákveða mig fljótlega. Á eftir að borga staðfestingargjaldið.
Ára er skráð í dóm á miðvikudaginn. Getur einhver sagt mér hvernig þetta virkar? Er hún fyrst byggingardæmd og svo sýnd í reið á þessum uppgefna tíma? Nú fer ég að fara á taugum.
Annars er komin töluverður hagi og ég vildi gjarnan fara að sleppa sem flestum hrossum. Ára þarf náttúrulega að vera inni fram yfir sýningu. Mér skilst að folaldið sem konan á hjá mér fari ekki í haga fyrr en 10. júní. Veit að það er eðlilegur tími en það er komin hagi nú þegar. Mætti alveg fara aðeins fyrr.

|