Búin að sleppa!!!
Já, þá eru loksins öll hross komin úr húsinu og upp á Kjalarnes.
Annars hefur það ekki gengið þrautarlaust. Ísadora og Embla fundu sér vini sem gengu lausir í fjallinu. Á laugardaginn síðasta sleppti ég Grímu, Áru og Ísold. Þegar ég kom á Kjalarnesið voru vinkonurnar upp í fjalli og Dagur kominn í girðingu tveimur stórum skurðum í burtu. Þótt byrjað væri að rigna og vindurinn að sækja í sig veðrið ákvað ég að það væri nauðsynlegt að koma hrossunum í rétta girðingu. Ég byrjaði á því að vaða upp í fjall og ná í dömurnar. Síðan fór ég að ná í Dag. Hef ekki hugmynd um hvernig hann komst þangað sem hann var kominn. Ég þurfti að fara í gegnum tvö hlið til að komast með hann niður á veg og ganga með yfir í mína girðingu. Þegar hann var svo kominn á réttan stað voru dömurnar komnar aftur út í fjall. Ég var búin að fá nóg, enda stóð ég varla í lappirnar í vindinum og var orðin þokkalega blaut. Þurfti svo að keyra á 50 í bæinn því það var komin vindhviðuviðvörun og ekki vildi ég tapa kerrunni.
Á sunnudeginum náði ég svo í Kviku. Sem gekk bara mjög vel eins og allt sem að henni snýr. Arkaði svo aftur upp í fjall, tvær ferðir, klyfjuð í bæði skiptin til að loka þessu almennilega þarna uppi. Það gekk svona ágætlega, ekki alveg fullkomlega samt. Náði í dömurnar aftur inn í girðinguna. Nei, nei. Í þetta skipti fór allt til helvítis því Ára, sem ekki hafði hitt dömurnar áður í girðingunni, ákvað að sýna þeim hver réði og hreinlega barði Emblu út úr girðingunni. Ég fór og náði í hana einu sinni enn, og tók Áru aftur með mér í bæinn.
Síðan rúlla ég upp eftir á mánudeginum og dömurnar aftur komnar út úr girðingunni. Svo ég gekk með meira af timbri og drasli upp eftir. Náði í dömurnar, hélt áfram að loka þessu eina helv... horni. Rak alla niður í sumarbeitina, sem ég á eftir að bera á og lokaði þau þar af.
Í dag fór ég svo aftur með Áru upp eftir og í þetta sinn var Hefring litla með í för. Í þetta sinn voru allir á sínum stað. Hefring litla var aðeins tekin á beinið en slapp nokkuð vel og allir voru sáttir þegar ég fór.
Nú er bara að vona að allt gangi vel.