Thursday, August 07, 2008

Fréttir af mér
Ég ætla að byrja á stuttri sögu áður en ég fer að telja upp það sem ég hef verið að gera.

Maður eða mús,...eða hvað?
Ég veit ekki hvort þið munið það, þessi fáu sem lesa þetta blogg á annað borð, en í vor bjargaði ég músarræfli frá heimiliskettinum. Þessi mús var eitthvað voðalega ósjálfbjarga og var enn frosin af skelfingu sólarhring eftir björgunina þegar ég ætlaði að sleppa henni aftur út í náttúruna/borgina. Það endaði með því að ég tók hana með mér upp í hesthús og setti hana þar í búr, svona þar til hún væri búin að jafna sig. Ég get ekki drepið neitt, það þýðir ekkert að ræða það.
Áður en ég sleppti hestunum hreinsaði ég búrið hjá henni. Er með alveg sérstakt plastbox sem ég nota til að bjarga músum sem hesthúsakettirnir koma með lifandi inn á kaffistofu. Þannig að ég geti náð þeim án þess að snerta þær og sleppt þeim svo í hlöðuna. Ég notaði þetta forláta box til að geyma músina meðan ég þreif búrið og dugði það ágætlega fyrir hana eins og allar aðrar mýs hingað til. Ég tók hins vegar eftir því að hún var orðin ansi blómleg og bústin blessuð músin og fannst mér hálf andstyggilegt að fara að sleppa henni svona feitri. Ég ákvað því að hún gæti verið áfram í búrinu upp í hesthúsi. Mýs lifa nú ekki svo lengi hvort sem er, hún gæti þá átt þægilegt líf þótt stutt væri.
Ég passaði bara upp á það væri matur og vatn fyrir, ég þarf hvort sem er að koma reglulega og passa upp á kettina, ein mús er nú ekki mikil fyrirhöfn. Var ekkert að stússast í henni að öðru leyti. Lét mér nægja að sjá hreyfingu í heyinu sem var hjá henni og stundum sá ég snjáldrin á henni og var það nóg staðfesting á því að hún væri lifandi.
Svo núna seinni hluta júlí er komin lykt úr búrinu þegar ég kem upp eftir eitt skiptið. Enda ekki við öðru að búast, ég hafði jú ekki þrifið búrið síðan að ég sleppti hrossunum. Ég setti mig því í stellingar til að þrífa búrið. Náði í litla plastboxið og bjó mig undir að fanga músina. Byrjaði að týna matarbakka og annað dót úr búrinu svo og heyið svo hún gæti ekki falið sig fyrir mér. Þegar ég tók hins vegar síðasta heyvöndulinn brá mér heldur í brún. Þvílíkt djöfulsins ógnarflykki var þetta sem blasti við mér. Það var ekki séns að veiða þetta í litla plastboxið mitt. Í hálfgerðu sjokki tókst mér samt að finna stærra box og með miklu harðfylgi tókst mér að veiða kvikyndið. En þegar hér var komið læddist að mér ljótur grunur og hrollur fór um mig. Ég kláraði að þrífa búrið og hélt heim á leið.
Þegar þangað var komið spurði ég mömmu að eftir farandi: "Hvernig var það, mannstu þegar Dúlli var að leika sér með músina í vor? Var það á sama tíma og það var verið að brjóta upp kjallarann í miðstigagangnum til að laga skólplögnina?" Og mikið rétt, það var á sama tíma. Þetta var engin mús sem hann Dúlli var að leika sér með, þetta var rottuungi. Það var ekki skrítið að greyið væri ósjálfbjarga. Ég hef sem sagt verið stríðala ræsisrottu í rúma tvo mánuði.
Þótt ég telji mig mikinn dýravin þá eru meira að segja mér takmörk sett. Ég gat engan veginn hugsað mér að eiga ræsisrottu í búri. Bara tilhugsunin um það að þurfa fanga þetta kvikyndi reglulega til að þrífa búrið var mér um megn. Það varð því úr að ég tölti með búrið út að læk,við hesthúsið, þar sem ég veit að mörg ræsi liggja, þrátt fyrir reglugerðir um annað, og veitti rottunni frelsi. Hún horfði á mig andartak áður en hún skoppaði út í frelsið. Ég held að þetta hafi verið niðurstaða sem við gátum báðar verið sáttar við.

Aðrir hápunktar sumarsins
Ég er bara búin að vera upp í bústað í sumar og er netleysið aðal ástæða bloggskortsins. Ég hef verið að ríða út, laga girðingar, snyrta og saga niður tré auk þess að liggja í sólbaði þegar veður hefur leyft.
15. júlí kastaði Kvika loksins rauðblesóttum hesti. Hann er í eigu norðmanna ekki minni en það hefur síður en svo skyggt á ánægjuna sem þessi elska hefur veitt. Hún Kvika mín var aftur með fastar hildir, fylgjan skilar sér ekki, eins og í fyrra og þurfti að ræsa út dýralækni. Hann hafði bara aldrei lent í svona föstum hildum og leist ekkert á blikuna. Hann sagði mér þó ekki að örvænta alveg strax og gaf henni pensilín og eitthvað sem veldur samdrætti í leginu. Ætlaði hann síðan að koma aftur morgunin eftir. Það var greinilegt að sprautan var að hafa áhrif og var Kvika greyið greinilega pirruð og með verki. En sem betur fer skilaði fylgjan sér sjálf um ellefu um kvöldið. En það sem hún kastaði leiðinlega seint og hefði þurft einhvern tíma til að jafna sig eftir fylgjuvesenið var ákveðið að halda henni ekki í sumar og reyna þá frekar að halda henni fyrr næsta vor. Ég ætla því að taka hana inn eftir áramótin, þegar er búið að taka folaldið undan henni, og ríða aðeins út á dömunni í vetur. Ætli það verði ekki síðasti séns til þess ef hún fer svo aftur í folaldseignir. Ég hlakka nú bara til að rifja upp gömul kynni við dömuna. Litli snáðinn er hins vegar orðinn spakur og kelinn með eindæmum. Hann verður bara hálf taminn þegar hann fer í áframhaldandi uppeldi.
Það er lítið annað að frétta í bili. Veit ekki hvenær ég lufsast í bæinn í haust. Lofa ég því litlu um bloggfærslur á næstunni.

|