Monday, October 27, 2008

Lítill frændi kominn í heiminn
"Tvibbinn" eignaðist lítinn strák í dag, 27. október, 14 merkur og 52 cm. Bæði móður og barni heilsast vel.
Ég er á Akureyri á hótel kea. Fer því næst í Aðaldalinn. Veit ekki hvenær ég blogga næst.

|

Saturday, October 25, 2008

Skúrað og skrúbbað en ekki bónað
Það verður bara að viðurkennast að það er eitthvað gallað í mér húsmóðurgenið. Mér finnst gaman að baka og jafnvel að laga mat en að þrífa nenni ég bara ekki. Það sem verra er, er kannski að þolþröskuldur minn fyrir drasli er ansi hár. Þ.e.a.s. að það er flest öllum öðrum farið að blöskra áður en ég fæ nóg. Ég tek það fram að þetta á bara við um ryk og drasl. Ég er ekki sóði. Ég skil ekki eftir matarleyfar eða hrúga upp skítugum fötum og sjálfa mig hirði ég býsna vel.
Nú þegar ég bætti við tveimur köttum á heimilið (tímabundið) þá tók ofnæmið mitt sig upp með miklum stæl. Ég er með ofnæmi fyrir frjókornum, köttum, hundum, ryki, ryki sem finnst bara í heyi ofl. ofl. Ég tek ofnæmislyf allan ársins hring, tvöfaldan skammt á sumrin. Á miðvikudagskvöldið var ég búin að taka tvær polaramin, eina lóritín og nota ofnæmisnefúða. Samt var ég með stíflað nef og klæjaði í augu, eyru og kok þegar ég fór að sofa. Það endaði með því að ég fór fram á bað og spúlaði út úr nefinu á mér með saltvatnslausn. Það sem betur fer virkaði. En ég sá fram á að þurfa að minnka eitthvað ofnæmisvaldana á heimilinu. Ekki gat ég látið kettina fara strax svo það lá beinast við að þrífa og þá sérstaklega svefnherbergið mitt. Í mínu svefnherbergi er ég með tölvu, sjónvarp, sófa og stóla, bækur og fleira sem safnar ryki. Og það hafði safnast mikið ryk. Ég verð bara að viðurkenna að mér stóð ekki á sama þegar ég fór að færa til hluti og þurka af og ryksuga. Ég varð eiginlega bara hissa að ég sé ekki búin að vera í ofnæmislosti í lengri tíma. En nú er allt orðið hreint og fínt og ofnæmið minnkað til mikilla muna.
Fyrst ég var nú komin í þennan þrifnaðar gír þá ákvað ég að það væri orðið tímabært að þrífa kaffistofuna upp í hesthúsi. Fínt að nota tækifærið meðan að kettirnir væru ekki á svæðinu. Og kaffistofan hefur ekki verið svona hrein og fín síðan að ég breytti þar síðast fyrir tveimur árum. En það segir ykkur kannski best hvað var orðið skítugt að ég var í tvo og hálfan tíma að þrífa þessa sex fm.
Ég held að ég verði að vera duglegri að þrífa í kringum mig.

|

Thursday, October 23, 2008

Update
Það er loksins eitthvað að gerast. Það var líka kominn tími til.
Það er búið að taka gerðið í gegn. Karlinn tók fjögur vörubílshlöss úr gerðinu, sem veitti ekki af, og setti tvö ný hlöss í gerðið. Núna flæðir ekki möl yfir kantinn og fram á stéttina mína. Það verður fróðlegt hvort það verði ekki betra. Ég er spennt að sjá í vetur.
Hringdi í bóndann með heyið og hann vonast til að geta komið með það á laugardaginn. Ég vona að það gangi eftir. Ég vil fara að gefa hrossunum, sérstaklega núna þegar það er snjór yfir öllu.
Svo fer ég norður í síðasta lagi á mánudaginn. Frekari fréttir af "Tvibbanum" koma seinna. En það er gott ef hrossin verða komin með hey áður, þá þarf ég ekki að hafa áhyggjur af þeim á meðan ég er fyrir norðan.
Það er ekki allt gott sem gerist en meðan það er ekki alvarlegra en eftirfarandi þá er það í lagi.
Fór að kíkja á hrossin í gær, fer annan hvern dag, og kem við í hesthúsinu í leiðinni. Oliver hefur verið heimavið þegar ég kem svo ég hef viljandi farið að heilsa upp á hann þegar ég er á ferðinni. Honum fannst alveg mál að kerlingin fari að koma daglega. Í gær birtist Frikki í fyrsta skipti í tvær vikur. Hann fékk samstundis alla athyglina, eða réttara sagt golfkúlan sem stóð út úr vanganum á honum. Blessað dýrið var með svona svakalegt graftarkýli. Við fórum að sjálfsögðu beint á Dýraspítalann og létum gera að þessu. Oliver var frekar svekktur þegar ég greip bara Frikka og skellti svo á nefið á honum. Frikki þurfti að koma með heim, enda varð að svæfa hann meðan var verið að hleypa úr kýlinu og svo þarf hann að fá pensilín tvisvar á dag. Ég fór því og náði í Oliver til að halda honum félagsskap og gista þeir félagar nú í gestaherberginu.
Ég fór svo til tannlæknisins í dag. Jújú, þetta var rótfyllti jaxlinn og það þarf að setja krónu á hann núna. Bara svo það sé á hreinu þá er þetta alltaf sama tönnin sem er að brotna, ég er ekki með svona lélegar tennur sem brotna bara hægri vinstri. En ég er að fara norður svo við förum í það eftir mánaðarmótin. Það er ágætt að það séu mánaðarmót í millitíðinni.
Meira er ekki að frétta af mér í bili.

|

Tuesday, October 21, 2008

Grá hár og hrukka
-Eftirfarandi bloggfærsa er nöldur, væl og sjálfsvorkunn-
Fyrir þau ykkar sem slysast hérna inn og þekkja mig ekki þá er rétt að benda á það að ég held heimili með móður minni og við búum í fjölbýli. Ég er 31 árs.
Við höfum ekki orðið mikið varar við kreppuna, enn þá, á eigin skinni. Höfum ekki lifað um efni fram og skuldum ekki krónu. Notum ekki raðgreiðslur né yfirdrátt. Það hefur samt allt sem getur bilað, bilað á síðustu vikum. Útgjöldin eru endalaus.
Það er verið gera við blokkina. Við erum nú þegar búnar að borga rúm 200þús. í viðgerðarkostnað í september og eigum eftir að borga í það minnsta annað eins.
Það var húsfundur í síðustu viku og þar kom fram að það eru göt á þakinu. Það er ekki hægt að gera mikið í því fyrir veturinn auk þess sem engin hefur efni á því. Það var líka samþykkt að láta dyrasímann bíða fram yfir áramót, þótt hann væri að syngja sitt síðasta. Það var samt ákveðið að láta yfirfara ofnana fyrir veturinn, enda margir búnir að vera bilaðir.
Það kom líka í ljós eftir að farið var að skipta öllum kostnaði miðað við eignarhluta í húsinu að við eigum stærstan hluta í húsinu. Þótt íbúðirnar á efstu hæðinni séu með ris eru þau ekki jafn mikils virði og auka herbergið okkar. Þannig að við borgum stærsta hlutan í viðgerðinni á húsinu. Við borgum líka hærra húsgjald og þar fram eftir götunum... Við fáum samt bara eitt atkvæði á húsfundum eins og allir aðrir.
Í gær dó dyrasíminn. Þannig að það þarf að skipta um hann STRAX. Það kostar fjörtíu og eitthvað þúsund. Það var komið og gert við ofnana. Það var bara ofninn hjá okkur sem var það mikið bilaður að það þurfti að taka vatnið af stigaganginum til að laga hann. Í þessu tilfelli borgar bara hver fyrir sinn ofn, svo við getum ekki deilt viðgerðinni á ofninum okkar niður á alla hina.
Var ég búin að segja ykkur að sjónvarpið bilaði í septembe?. Ég hennti því um daginn. Það var eins gott að ég keyrði það í gegn í fyrra að kaupa nýtt sjónvarp í fullri stærð í sumarbústaðinn, því ég gat bara sótt það og núna er það hérna heima. Gátum sparað smá þar.
Ég var búin að tala um að bílinn fór í viðgerð. Það kostaði litlar 284þús. en það var ekki til nýtt púströr á lager þannig að það þurfti að bíða. Það ættu ekki að vera nema svona 15-20þús í viðbót, samkvæmt verkstæðinu.
Ég fann hvít hár í vöngunum á mér í vikunni. Ekki bara grá, heldur hrímhvít. Þau virka líka miklu grófari en hárið á mér almennt. Sé það í anda að ég á eftir að vera með svona hvít hár standandi út í loftið eins og veiðihár á ketti. Svo er hrukkan mín, þessi eina, með fasta viðveru á enninu á mér þessa dagana. Ekki að undra þar sem ég er brúnaþung með eindæmum og fýlusvipurinn fastur á mér. Þrátt fyrir grátt hár og hrukku er ég með bólur ofan í allt annað. Ég stóð í þeim leiða misskilningi að þegar ég yrði nógu gömul til að fá hrukkur væri ég orðin of gömul fyrir bólur. Það er greinilega ekki rétt. Skemmtilegast af öllu er þegar ég fæ bólu ofan í hrukkuna. Síðan er farið að verða það kalt að ég er farin að þorna í húðinni. Ég er farin að skoða rakakrem í apótekinu. Ég var ekki búin að búa mig undir þessar breytingar. Svo er í alvörunni haldið fram að gelgjan sé svo slæm. Líkami minn hefur tekið miklu meiri breytingum síðustu ár en hann gerði á gelgjunni. Þurr húð, slitin liðbönd, mjaðmaverkir, brjósklos, brak og brestir í hinu og þessu, grá hár, hrukka, sjónin að byrja að versna, slæm melting, ég get bara ekki borðað hvað sem er lengur.
Ofan í allt þetta braut ég úr tönn einu sinni enn í gær. Vona innilega að það sé ekki rótfyllta tönnin sem ég búin að brjóta þrisvar því ef það er hún þarf ég líklega að fá krónu og hún kostaði 60þús. þegar tannlæknirinn talaði um hana fyrir næstum ári síðan.

|

Thursday, October 16, 2008

Take the money!!!
Hvað gengur að þessu fólki? Ég býðst til að ausa í það peningum og það lætur ekki sjá sig eða heyra í sér.
Ég er ekki búin að fá heyið fyrir útiganginn. Þegar ég hringdi síðast var blessaður maðurinn í útlöndum. Ætlaði að fara í þetta þegar hann kæmi heim. Er hann ekki kominn? Hefur farið fram hjá honum að það er kreppa? Pilla sér heim.
Gröfumaðurinn er hvorki búinn að tæma þrónna hjá mér eða taka gerðið í gegn. Það þarf að gera þetta áður en það kemur frost í jörð. Ég get ekki ímyndað mér að það sé mikið að gera.
Blessaður maðurinn með undirburðinn lætur heldur ekki heyra í sér. Það er kannski skiljanlegra en ég vil fara að heyra í einhverjum.
Fjögra vetra tryppin eru bæði komin með töluvert af hnjúskum. Ég er hrædd um að þau séu að leggja af. Ég get ekki tekið þau inn strax. Ef ég væri komin með heyið myndi ég bara byrja að gefa þeim út.
Annars voru hrossin orðin mjög svöng og pirruð þegar ég kíkti á þau á mánudaginn. Embla var hálf ofan í skurði að éta og ég hreinlega fann hana ekki strax. Eldri hrossin voru mjög hörð við yngri hrossin og ráku þau í burtu með látum þegar ég var að gefa þeim brauð. Þetta gekk ekki lengur, þótt það væri enn eftir einhver beit í efrihlutanum hjá mér. Ég ákvað því að hleypa þeim í neðri hlutan sem ég var búin að vera að spara. Ekki það, þau eru öll mjög feit en það er ekki hægt að hafa svona pirring og leiðindi í hópnum, það endar bara með slysum. Það kom strax mikil ró yfir hópinn þegar hann komst í meiri beit. Það er alveg ljóst að ég þarf að taka reiðhrossin inn í byrjun nóvember en ekki desember eins og ég ætlaði. Það er bara einn atburður sem þarf að eiga sér stað áður en ég get tekið inn og það er ekki kominn föst dagsetning á hann.
Það þarf eitthvað að fara að gerast. Ég þoli ekki þessa biðstöðu. Réttara sagt ég þoli ekki að bíða eftir að annað fólk geri eitthvað.

|

Saturday, October 11, 2008

Þýðir ekkert að væla
Ég átti ógurlega bágt í lok vikunnar. Efnahagurinn farinn til helvítis. Bílinn í klessu. Ég farin í bakinu, gat ekki beygt mig. Þrjú hross farin að fá hnjóska. Allt alveg hræðilegt.
Ég nennti ekki að vera svona vonlaus. Ég ákvað bara að eyða þessum peningum sem ég á (enn þá). Athugaði með undirburð. Ég ætla prófa eitthvað nýtt í vetur. Segi ykkur betur hvað og hvernig seinna, en ég þarf þá að borga það fyrirfram. Hringdi í gröfukarlinn, ég þarf að láta skipta um möl í gerðinu. Bara drífa í því. Samkvæmt mínum áætlunum, er nebbla ekki komin með fast verð, er ég líklega búin að lofa öllum peningunum mínum. Er það ekki það sem við eigum að gera? Halda efnahagnum gangandi?

|

Wednesday, October 08, 2008

Kreppan
Fyrir einu og hálfu ári byrjaði ég að leggja fyrir tíu þúsund krónur á mánuði í sjóð 9 hjá Glitni. Ég lenti næstum því í rifrildi við þjónustufulltrúann um öryggi þessa sjóðs. Hann fullyrti að það væri ENGIN áhætta að leggja fyrir í þessum sjóði. Ég hins vegar stóð föst fyrir á því að ef þetta tengdist hlutabréfum og gengi þeirra þá væri einhver áhætta sem fylgdi þessu, jafnvel þótt gengi þessa sjóðs hefði aldrei lækkað. Eftir nokkuð þras játaði þjónustufulltrúinn að sjóðurinn væri hugsanlega ekki 100% öruggur. Ég vissi að ég væri að taka áhættu og ég lét engan segja mér neitt annað. Nú í sumar var upphæðin orðin það há, ekki mjög há en skiptir máli fyrir mig, að ég var farin að íhuga að færa hluta af þessu annað. Síðan hófst þetta Glitnis mál allt saman eins og allir vita núna. Um leið og opnað var fyrir viðskipti í sjóðnum trillaði ég mér í bankann og tilkynnti að ég vildi loka þessum reikningi. Sem betur fer kom ég út í plús. Nafnverðið hafði lækkað en ég fékk út höfuðstólinn auk ásættanlegra vaxta fyrir ekki lengri tíma. Þótt nú hafi annar þjónustufulltrúi aðstoðað mig kom sama ruglið. Vissulega væri nafnverðið aðeins búið að lækka en sjóðurinn ætti að vera stöðugur núna. Er ekki í lagi með fólk? Hefur það ekki verið að fylgjast með? Eignarhald á fyrirtækjum á Íslandi er allt tengt þvers og kruss og ef spilaborgin byrjar að falla þá fellur allt. Ég sagði þjónustufulltrúanum að þetta væri mjög einfalt. Ég ætlaði að hafa peningana mína á reikningi sem íslenska ríkið gengist í ábyrgð fyrir. Mikið agalega er ég fegin að hafa gert það núna.
Í kvöld kom kona í sjónvarpið og sagðist hafa látið allt sitt sparifé í svona sjóð og hafði svo spurt í bankanum í síðustu viku hvort hún ætti að losa peningana sína og setja í eitthvað öruggara. Henni hafði verið sagt að hún þyrfti ekki að hafa áhyggjur og núna væri hún líklega búin að missa allt sitt sparifé og hún sem hafði alltaf verið svo skynsöm í fjármálum. Ég hef vissulega samúð með þessari konu og vona innilega að hún komist í gegnum þetta. En... Þú hefur ekki allt þitt sparifé í hlutabréfum. Regla eitt er að þú setur aldrei öll eggin þín í sömu körfuna. Regla tvö ætti líklega að vera sú að starfsmenn bankans vinna fyrst og fremst fyrir bankann. Umfram allt berð þú sjálf/ur ábyrgð á þínum fjármálum.
Það var líka í fréttum að það hafi verið löng biðröð í öllum bönkum því fólk var að taka út peningana sína. Það er nebbla svo miklu öruggara að eiga pappírsbleðla heima hjá sér. Hvað heldur fólk að gerist ef Ísland fer á hausinn? Íslenskar krónur verða verðlausar alls staðar í heiminum.
Í öðrum fréttum en samt tengdum peningum er þetta:
Ég pantað fyrir gamla rauð á verkstæði. Hann fékk eina athugasemd í skoðun í sumar. Það lak dempari að aftan. Í sumar og haust hef ég svo orðið vör við að handbremsan virkaði ekki sem skyldi, mér fannst vera komið auka hljóð í pústið og svo kom leiðinleg hitalykt af kúplingunni þegar ég var að bakka með hestakerruna svo ég bað um að það væri kíkt á það líka. Það var hringt í hádeginu til að bera undir mig viðgerðarkostnað. Það þarf nýja bremsuborða og klossa að framan. Það var líka að gera eitthvað við bremsurnar að aftan. Handbremsan er föst öðrumegin og þarf að taka hana algjörlega í gegn. Það þarf að skipta um hluta af púströrinu. Kúplingin er að gefa sig. Það var líka eitthvað tengt gíraskiptingunni og ofl. ofl. ofl. Eftir smá stund var ég hætt að grípa hvað var að og orðin upptekin að upphæðinni. Ef það væri gert við það nauðsynlegasta væri viðgerðin circa 120þús. Ef allt væri tekið hljóp viðgerðin á hundruðum þúsunda. Eftir að hafa þingað um málið hér heima var ákveðið að láta gera við allt. Verð á varahlutum á bara eftir að hækka. Við vitum ekki hvers virði peningarnir verða eftir því sem á líður. Það er kannski bara lang best að nota peningana sem við eigum til meðan við fáum eitthvað fyrir þá. Við eigum alla vega eftir að eiga bíl í góðu standi svo kemur bara í ljós hvort við fáum bensín á hann.

|

Sunday, October 05, 2008

Búin að girða
Ég var í fjóra tíma upp á Kjalarnesi í gær að klára að girða. Ég var svo þreytt þegar ég kom heim að ég hélt að ég yrði ekki eldri. Það var glampandi sól og stilla, veðrið hreinlega yndislegt. Snjórinn sem féll á fimmtudaginn bráðnaði í burtu meðan ég var upp frá. Það var meiri snjór út í garði heima en var í haganum hjá mér. Nú er bara spurning hvort að hrossin leggi á sig að fara þarna upp eftir. Það er nebbla vatnsuppspretta þarna efst þannig að þetta er leiðinlega blautt þar sem þau þurfa að fara yfir. En ef þau fara yfir það þá er þurr og fín hagi þarna uppi. Ég var búin að spá í að setja brú yfir skurðinn annars staðar svo þau þurfi ekki að fara yfir bleytuna. Ég hef bara ekkert þurft að nota þennan hluta að stykkinu mínu, þannig að ég hef ekki nennt að standa í neinum framkvæmdum. Það getur verið að ég geri eitthvað í þessu næsta vor.
Nú bíður mín næst að halda áfram með kjallaraherbergið. Ég er ekki að nenna þessu einmitt núna. Ég finn hvernig haustið læðist yfir. Ég hef mikla þörf fyrir að vera úti í birtunni. Koma blóðinu á hreyfingu. Mér er lífsnauðsynlegt að fara út að ganga á haustin. Einmitt núna er rigning og hálka. Skautaði út í bakarí í morgun. Ekki spennt að reyna það aftur. Jæja, ég finn út úr því.

|

Thursday, October 02, 2008

Nóg að gera
Jæja, ég er búin að fara eina ferð norður. Næsta verður líklega um næstu mánaðarmót. Ég var alveg búin að fá upp í kok af kjallaraherberginu og ákvað að salta það aðeins. Ég ætla samt að reyna að vera búin með það fyrir lok mánaðarins. Ég er hins vegar búin að vera í girðingarvinnu undanfarna daga. Dálítið sein í því. Ég var bara farin að hafa áhyggjur af beitinni og fannst þetta engan veginn nóg fyrir litlu fitubollurnar mínar. Þau eru svo feit, hrossin, að þau gætu nú staðið á möl næsta mánuðinn án þess að horfalla. En það kemur auðvitað EKKI til greina. Þannig að ég ákvað að lagfæra girðinguna á efsta hlutanum af stykkinu. Hef ekkert haft þörf fyrir þennan hluta og það er mjög leiðinlegt að girða þar því það er svo grýtt þarna efst. Ég ákvað samt að taka á honum stóra mínum og laga girðinguna. Ekki mega börnin svelta. Ég komst fljótt að því að erfiðast er að koma girðingarefninu þarna upp. Það hefur gengið ágætlega að koma staurunum niður eftir allt saman. Ég hef nú samt komist að því, þeimur oftar sem ég geng um stykkið að það er nú lúmskt eftir af beit. Ég á reyndar líka eftir neðsta hlutan sem ágætlega loðinn. En ég ætla að spara hann eins lengi og hægt er.
Ég fékk líka nett áfall á mánudaginn út af þessum fréttum af Glitni sem er auðvitað minn viðskiptabanki. Það sem verra er að ég átti peninga á sjóði 9. Innistæðan mín hafði lækkað um 15þús. en var samt 8þús. hærri en það sem ég var búin að leggja inn. Ég lokaði samt reikningnum og lagði inn á bankabók. Ég ætla sko að hafa mína peninga ríkistryggða á þessum síðustu og verstu tímum.

|