Friday, November 28, 2008

The bitch is back
Ég ákvað að trítla með tölvuna mína í viðgerð. Blessuðum manninum sem tók á móti henni þótti hún býsna forn blessunin og vorum við sammála um að eyða ekki miklum tíma í að gera við hana. En hún er seig og leynir á sér, eins og eigandinn, og get ég ekki séð betur en að hún sé í fullkomnu lagi. Ég hafði ekki áttað mig á því hvað ég saknaði tölvunnar. Það er erfitt að lifa í nútíma þjóðfélagi og komast ekki á netið.
Það er svo sem ekki mikið að frétta af mér. Ég er ekki viss um að þessi sjúkraþjálfun sé að skila tilætluðum árangri. Ég vissulega finn minna til þegar sjúkraþjálfinn er að þjösnast á bólgunum sem ætti að þýða að þær séu að minnka. En... Bakið á mér virðist ansi brothætt. Ég finn það býsna vel að ég verð að passa mig og fæ iðulega verki sem segja mér að ef ég hætti ekki því sem ég er að gera það augnablikið þá eigi eftir að fara illa fyrir mér. Ég fékk líka verk í mjöðmina, mjaðmaliðinn, þegar ég var á hestbaki. Svipaðan verk og ég fékk þegar ég byrjaði að ríða út aftur eftir að ég datt af baki. Mér leist ekki vel á það.
Það gengur vel með graddana. Það var sest á þá í fyrsta skipti í dag, bara inni, og gerðu þeir ekkert af sér. Ég ríð út á Áru og Ísold, þegar mér er ekki of kalt. Það er hins vegar alveg tímabært að fara að járna Dag og Gleði því hnjóskarnir hættu snarlega að fjölga sér eftir að þau komi inn og verður að segjast að það voru ekki komnir margir. Annars fékk Dagur marga plúsa í kladdann fyrir góð barnapíustörf í vikunni. Það komu tvö folöld í húsið síðasta laugardag og var Dagur fenginn til að fara út með þeim fyrstu skiptin og auðveldaði það mjög að koma þeim inn og út.
Það verða kannski fleiri blogg á næstunni.

|

Thursday, November 20, 2008

Bilað, bilað og aftur bilað
Ég hélt að allt sem gæti bilað væri búið að bila. Það var að sjálfsögðu rangt. Lengi getur vont versnað. Nú fór tölvan til helv... Ég veit í fyrsta lagi ekki hvort borgar sig að gera við hana. Og í öðru lagi er ég ekki viss um að ég hafi efni á því fyrr en eftir mánaðamót. Þannig að það verður lítið um blogg.
Það er byrjað að temja graddana og gengur bara vel. Það var byrjað á mánudaginn og það var kominn hnakkur á þá í dag. Hlér hrekkti hnakkinn aðeins en ekki Glaumur. Þeir voru líka járnaðir á framfótum í gær og gekk það vonum framar. Ég er aðeins að jafna mig á töktunum í þessum hormónaóðu táningum. Það eru allir yfir sig hrifnir af Glaum en Hlér kemur með flotta takta þegar hann má vera að því að halda sig á brokki og er betri eftir að skeifurnar komu.
Annars gengur bara allt þokkalega. Ég veit ekki hvenær ég kemst í tölvu næst. En engar fréttir eru góðar fréttir.

|

Monday, November 10, 2008

Aumingja ég
Ég veit ekki hvernig ég á að fara að í vetur þegar það kemur að undirburði í hesthúsið. Ég fékk þá frábæru hugmynd að ég gæti kannski notað hálm. Mágur minn gaf mér smá hálm til að prófa en það hefur ekki tekist eins og ég vonaði. Ég vissi fyrirfram að hrossin myndu éta hluta af hálminum. Hún Ára, gerði gott betur en það. Það var hægt að telja stráin sem voru eftir í stíunni hjá henni daginn eftir. Þannig að það þurrkaði ekki mikið. Ég ætla aðeins að sjá til og prófa aftur þegar ég er búin að safna aðeins í stíuna. En ég er hrædd um að ég verði að kaupa spæni og það verður dýrt. Mér reiknast til að það komi til með að kosta mig hátt í 400þús. ef ég ber undir eins og ég vil bera undir. Þetta sýnir mér náttla enn betur að ég verð að breyta hesthúsinu og fá hita í gólfið til að þurfa ekki að bera svona mikið undir. En það verður bið á því ef ég eyði 400þús. í spæni í vetur.
Ég hef því verið að spá í hvernig ég get orðið mér út um peninga núna á síðustu og verstu tímum. Hvað á ég svo sem ég gæti selt og væri einhvers virði? Ég gæti séð af einu nýra, vel með farið. Hluta af lifur, ég drekk ekki áfengi svo hún ætti að vera í góðu lagi. Beinmerg gæti ég líka selt en hann er sennilega minna virði. Blóðflokkurinn minn er A+, áhugsamir geta skilið eftir netfang og tilboð í líffæri á kommentakerfinu. Ég gæti líka séð af nokkrum eggjum. Kem líklega ekki til með að nota þau sjálf. Ég er sæt og klár, pínu klikkuð reyndar en það er örugglega meira uppeldið en erfðir. Annars er ég ekki með neina erfðasjúkdóma. Ef þið viljið sjá sýnishorn á afkvæmum getið kíkt á síðuna hjá Fröken Ástu. Ég á líka olíumálverk eftir Pétur Friðrik ca. 50x70.
Það er spurning um að bæta fjórum graddatittum á listann líka. Ég fór og sótti þá Hlé og Glaum í gær. Það eru töluverðir graddastælar í Hlé. Glaumur er stilltari en lætur svo sem í sér heyra líka. Ég held að ég hafi ekki gert mér grein fyrir því hvað ég var að koma mér í. Þetta verður vesen. Ég varð bara þreytt að fylgjast með þeim í dag. Hlér er líka búinn að skella sér tvisvar upp á innréttingarnar. Hringdi snarlega í járningarmanninn sem á styrkja innréttingarnar. Fór í dag að kaupa járn til að hægt sé að smíða búr fyrir drengina. Þetta er önnur ástæða fyrir því að ég þarf að taka hesthúsið í gegn. Þær eru ekki nógu sterkar innréttingarnar.
Það er líka ljóst að það á eftir að versna áður en það batnar þessi blessaða mjöðm og sjúkraþjálfunin. Djöf.... er vont að láta þjösnast svona á bólgunum mínum. Ég ákvað líka að þegja bara þegar sjúkraþjálfin fór að tala um að láta grófu brokkarana bíða og ríða bara mjúkum tölturum. Teyma bara brokkarana til að byrja með. Yeah, right. Ég ætla nebbla að láta Áru bara hlaupa með í taum.
Það er alltaf eintóm hamingja í kringum mig.

|

Friday, November 07, 2008

Bara allt að gerast
Já, ég hefði átt að kvarta meira. Það var komið með heyið seinni partinn á miðvikudag. Og ég er svo mikill snillingur, og borgarbarn, að ég hélt að þetta yrði ekkert mál. Bílinn er með þennan fína krana sem ég hélt að yrði notaður til að taka rúllurnar af bílnum, svona alveg eins og heybaggarnir sem ég fæ í hesthúsið. Nei, það víst ekki alveg jafn auðvelt, svona vegna þess að þær eru erfiðari í laginu. Þannig að meiri hlutinn fór af með handafli. Og var raðað eftir bestu getu með því líka. Ég reyndi að fá traktor til að taka rúllurnar af en ég var með aðeins of lítinn fyrirvara. Ég get reyndar fengið einn til að raða rúllunum fyrir mig en ég held ég sé ekkert að því. Þær taka ekkert mikið pláss svona. Verðið var samt best af öllu. 4300kr rúllan, komin í bæinn. Það var ódýrara en ég hafði gert ráð fyrir. Ég veit að þetta er ekkert súperhey en það er ekkert að því. Grænt, mátulega þurrt, lyktar vel og hrossin éta það með bestu lyst.
Þá komum við að kafla tvö. Á fimmtudeginum fór ég í fyrsta tímann í sjúkraþjálfun. Ég er bara pínu aum í mjöðminni, þegar er verið að pota svona í hana. Ég á að koma þrisvar í viku til að byrja með. Mér finnst það nú kannski full mikið en það er best að hlýða. Þá jafnar þetta sig kannski á endanum.
Því næst brunaði ég af stað að færa hrossin. Já, það var ekki eftir neinu að bíða, það var orðið gjörsamlega haglaust hjá þeim greyunum. Þau voru öll sátt við að fara eitthvað annað og gekk bara eins og í lygasögu að koma öllum á kerruna og á sinn stað. Erfiðust voru Kvikubörnin, Hefring og Úlfur, en það er ekki skrítið, þau eru jú yngst, veturgömul og tæpra fjöggra mánaða. Aðrir myndu líklega ekki kalla það erfitt í ljósi þess að ég kom þeim ein á kerruna. En þá eru Glóey, Kvika, Gríma, Ísadora, Embla, Hefring og Úlfur komin upp í bústað og á útigjöf. Og Ára, Ísold, Gleði og Dagur komin á hús. Við Gríma komum við á Dýraspítalanum og haldið þið að daman sé ekki bara fylfull!!! Hún er bara svona snobbuð daman, hún lætur ekki bjóða sér neitt annað en fyrstuverðlaunahesta, enga titti fyrir hana. Þetta ferðalag tók litla átta tíma.
Í dag þurfti ég svo að fara og sækja tvo heybagga í hesthúsið. Það verður að viðurkennast að þegar ég var búinn að bera annan baggann inn þá varð ég eitthvað voðalega þreytt. Svo ég ákvað að geyma bara hinn baggan þar til á morgun. Það liggur ekkert annað fyrir á morgun. Á sunnudaginn er ég að fara að sækja graddatittina.
Ég held að ég þurfi ekkert að kvarta yfir því að hafa ekki nóg að gera á næstunni.

|

Wednesday, November 05, 2008

Hvað er að frétta?
Ég er komin í bæinn eftir að hafa eitt viku með litla frænda. Ég hef aldrei áður eytt svona löngum tíma með litlu barni. Ég er alveg hissa hvað þau eru miklir karakterar strax. Það fer ekkert á milli mála að þetta barn er í minni fjölskyldu. Þau ykkar sem þekkja mig vita að það fer yfirleitt ekkert á milli mála hvað mér finnst. Ég er víst þekkt fyrir sterk svipbrygði. Ég hef aldrei séð svona lítið barn setja í brýrnar fyrr.
Þið getið beðið lengi eftir að ég setji inn myndir eða farið á síðuna hjá Fröken Ástu og séð mynd strax.
Meðan ég var í burtu átti að byrja að styrkja stíurnar fyrir stóðhestana og skipta um öryggi til að ég geti háþrýstiþvegið hesthúsið. Það er ekki búið að gera neitt. Ég er ekkert fúl.
Hann hringdi líka í mig bóndinn með heyið á mánudaginn og sagðist ætla að koma með heyið í dag miðvikudag. Ég er búin að sitja við símann frá því morgun, ekki þorað að gera neitt sem gæti hugsanlega orðið til þess að ég missti af þessu mikilvæga símtali. Og það er ýmislegt sem ég hefði annars gert. Ég get ekkert gert fyrir en ég fæ heyið. Um leið og ég fæ heyið færi ég útiganginn og tek inn reiðhrossin. En ég bara sit og bíð og glápi út í loftið. Það er ekki skrítið að ég sé að verða gráhærð.

|