Tuesday, December 30, 2008

Þetta er sá allra leiðinlegasti tími ársins
Ég er bara orðin svo slæm á taugum í seinni tíð að ég þoli ekki allar þessar sprengingar. Ég get ekki einu sinni falið mig í hesthúsinu eins og ég geri fram að jólum því þar er enginn friður fyrir þessu heldur. Í gær voru tveir drengir í nýja hverfinu við Leirvogstungu að leika sér að því að skjót ílum út á reiðveginn. Það var allt sem vantaði.
Síðan eru allir hundfúlir og út í alla út af þessari salmonellu sýkingu. Það er nú ekki búið að skrifa neitt lítið um "okkur Harðarmenn" á netinu. Ég var spurð hvort ég hefði ekki áhyggjur af því að kettirnir mínir myndu bera þetta á milli. Það hafði nú ekki einu sinni hvarflað að mér. Ég hef nú svo sem litlar áhyggjur af því að þessar feitu svefnpurkur sem liggja yfirleitt alltaf inn á kaffistofu fari að troða sér inn í lokuð hús í töluverðri fjarlægð. Ég myndi bara kippa þeim heim meðan þetta gengur yfir ef það væru ekki að koma áramót með tilheyrandi látum. Held að það sé betra fyrir bæði hesthúsakettina og heimakettina að fá að vera í friði á sínum heimilum með þessi læti ganga yfir.
Mér er búið að ganga ágætlega í útreiðunum, þar til í dag, að Dagur reyndi að hrekkja mig. Hann er bara of latur, stirður og þungur á sér til að geta tekið almennilega stungu, sem betur fer fyrir mig. Þannig að þetta var bara ein slöpp stungutilraun sem varð til þess að hann var hvattur úr sporunum sem aldrei fyrr. Ég vona að hann hugsi sig tvisvar um áður en hann reynir þetta aftur.
Ég gleymdi að nefna það hér áðan, fyrst ég var að tala um kettina, að það er kominn músagangur á kaffistofunni hjá mér í fyrsta skipti síðan ég keypti hesthúsið. Kettirnir eru bara of latir til að sinna þessu. Þannig að ég er í því að fleygja til húsgögnum þegar ég heyri þrusk en sé hana eða þær sjaldan en þær eru þarna. Ég bæði finn lyktina af þeim auk þess sem þær skilja eftir sig vegsumerki.
Allt í einu núna eru allir að taka eftir því að ég sé búin að grennast. Já, bara um 30 KÍlÓ!!! Varstu að taka eftir því núna að ég hafði lagt aðeins af? Það munar nebbla öllu um þessi síðustu sjö sem ég missti í sumar.
Mæli ekkert með því að fólk sé að nálgast mig núna næstu 48 klukkustundirnar meðan þessi ósköp ganga yfir en ef þið þurfið þess nauðsynlega þá er ég þessi brúnaþunga með gribbuhrukkuna og eyrnartappana.

|

Friday, December 19, 2008

Bara að koma jól og allt...
Ég hef nú verið skammarlega löt að blogga undan farið. Hef bara ekki haft orku til þess þegar allt annað er búið. Hef eytt deginum í hesthúsinu og kvöldunum annað hvort í smákökubakstur eða sjónvarpsgláp. En það er flest allt búið fyrir jólin. Þarf að fara einhverja lokaumferð í heimilisþrifum og kannski svona ein til tvær jólagjafir ókeyptar.
Það er allt komið á fullan skrið í hesthúsinu. Ég er farin að ríða út á Degi og Gleði, 4v tryppi. Ára og Ísold hafa hins vegar verið notaðar sem stuðningur fyrir stóðhestana. Þeir hafa verið svo stilltir í tamningu að það var ekkert annað að gera en skella þeim í reiðtúr. Ég vona nú innilega að tamningardaman nái að fara ein á þeim í reiðtúr áður en hún fer á Hóla. Ég verð nú samt að telja í mig kjarf áður en ég fer að fara á þessi drengi, úff. Það er fleira sem þarf að hafa áhyggjur af en hvort þeir hendi mér af baki. Hvort þeir reyni nokkuð að skella sér upp á næstu hryssu eða sparka í næsta hest ef þeim líkar ekki við hann. Aumingja Ísold fékk að kynnast hvoru tveggja þegar hún fór með þeim í fyrstu reiðtúrana. Hún hefur ekki verið sérlega spennt fyrir að fara með þeim síðan og lái henni hver sem vill.
Engin jólakort
Ég ætla ekki að senda nein jólakort í ár. Ég ýtti þessu einhvern veginn á undan mér og núna er það eiginlega orðið of seint. Svo er ég bara ekki í stuði til að setjast niður og skrifa jólakort. Hef heyrt að það sé sama sagan hjá fleirum. Líklega ástandið í þjóðfélaginu sem hefur þessi áhrif. Ég óska ykkur nú samt öllum gleðilegra jóla og vona nýtt ár færi okkur öllum ný tækifæri. Þeir sem slysast ekki hérna inn verða bara að vera fúlir út í mig.

|

Wednesday, December 03, 2008

Gamlir tímar, gömul sál
Ég veit ekki hvers vegna ég fór að rifja upp þetta atvik í dag en ég gat ekki annað en brosað þegar ég hugsaði um það.
Það var á einum staðnum sem ég var að vinna við afgreiðslu að mér fannst ég mun eldri en samstarfsfólk mitt þótt ég væri í raun bara 1-3árum eldri en flestir. Ég hef verið 22 ára, alveg eldgömul alveg hreint. Það spurði mig meira að segja ein stelpan hvort ég ætti gamla foreldra. Ég varð að viðurkenna að það mætti víst segja það. Ég er jú yngsta barn og þar að auki er ég yngsta barnabarn í annari ættinni og næst yngst í hinni. Ég gat ekki annað en spurt hvernig hún vissi það. Hún heyrði það á því hvernig ég talaði.
Í öðru tilfelli var ég nýbúin að afgreiða einhvern strák þegar samstarfstúlka mín kom skoppandi til mín alveg tístandi af spenningi. "Veistu hvern þú varst að afgreiða?" Ég hafði ekki hugmynd. "Þetta er Hreimur." Hver??? Ég fékk heldur betur að vita hver það væri.
En atvikið sem ég var að hugsa um í dag var þegar strákur kom og spurði um stelpu sem vann með mér. Hún var ekki komin en ég sagðist skyldi láta hana vita að hann hefði verið að spyrja um hana. Síðan þegar stelpan kom sagði ég henni frá drengnum sem reyndar hafði ekki sagt til nafns. Ég lísti honum eftir bestu getu og bætti svo við: "Já, og svo var hann með kjúklingalöpp um hálsinn." Þið hefðuð átt að sjá svipinn sem ég fékk. "Þetta er arnarkló." Sem afi hans eða frændi eða einhver hafði gefið honum. Þetta átti greinilega að vera eitthvað rosalega töff. Það fór alveg framhjá mér. Mér fannst þetta bara hálf hallærislegt að vera með eitthvað, sem leit út fyrir að hafa verið hirt úr ruslagámi fyrir aftan sláturhús ,um hálsinn.

|