Wednesday, January 21, 2009

Hestarnir - þjóðfélagið
Ég er farin að skilja hvers vegna flestir tamningarmenn eru með unga krakka sér til aðstoðar. Það er ekki fyrir svona gamalt fólk að ríða þessum tamningartryppum. Það er ekki það að það gangi ekki vel hjá mér. En þegar 4 af 6 hrossum sem ég ríð út á daglega eru í tryppi í tamningu sem þarf mest megnis að ríða á brokki, auk þess sem þau eru ekkert rosa stöðug með knapa þá reynir þetta á gamlan og slitinn skrokk. Ég er bara drulluþreytt þegar ég kem heim á kvöldin. Ég er nú sem betur fer ekkert að fá tak í mjöðmina eða bakið en ég finn að ég er þreytt í bakinu. Svo þegar ég er búin með tryppin þá bíður eftir mér reipitog við hana Áru mína. Hún þarf sífellda áminningu um það að vera með hausinn niðri og þegar ég ríð henni á hægu tölti leggst hún á tauminn og hangir þar þangað til að ég tek í hana og læt hana stoppa og gefa eftir og svo byrjum við upp á nýtt. Ég er komin með þvílíkar harðsperrur í handleggina og brjóstvöðvana. Heit böð og hitapoki þess á milli er orðið ansi vinsælt hjá mér. Ég er að reyna að horfa á sjónvarpið á kvöldin en það endar yfirleitt með því að ég sofna í sófanum eða gefst upp og fer inn í rúm þegar ég er hætt að sjá skýrt.
Ég er mjög hlynnt mótmælunum sem eru í gangi þótt ég sé ekki hrifin af skrílslátunum sem fylgja. Finnst í góðu lagi að vera með hávaða en það er alveg óþarfi að kasta eggjum og skyri. Hvað þá í aumingja lögreglumennina. Þeir eru nú bara að reyna að vinna vinnuna sína og má alveg sína þeim virðingu. Svo og þinghúsinu sjálfu og öðrum eigum þjóðarinnar. Ég er heldur ekkert voðalega hrifin af því að það hafi verið kveikt í Oslóartréinu. Ég veit að því hefði verið hent eða urðað en mér fannst samt einhver lítilsvirðing í því að kveikja í því.
En ég vil ríkisstjórnina frá og kosningar sem fyrst.

|

Sunday, January 18, 2009

Hestablogg
Það á aldrei að hrósa hesti undir hamri og ég vona að ég fái ekki gífuryrðin í bakið en ég bara verð að hrósa hrossunum mínum. Það gengur bara allt svo glymrandi vel að það hálfa væri nóg.
Tamningardaman mín skilaði af sér gröddunum á föstudegingum fyrir rúmri viku, því hún var að fara á Hóla. Eins og ég sagði hér síðast þá vildu þessir tveir tamningarmenn sem ég talaði við ekki taka þá, eða gátu ekki tekið þá. Ég nenni bara ekki að ganga á milli manna til að biðja þá um að taka fyrir mig hrossin. Þannig að ég ákvað bara að prófa þetta sjálf og sjá hvað gerðist. Svo ég byrjaði bara í minnsta gerðinu og þegar það gekk vel þá fór ég í stærra gerði. Og núna á laugardaginn þá fór ég bara í reiðtúr, ein og óstudd. Þeir voru svo duglegir drengirnir og hlýðnir og góðir. Ég mæli eindregið með því að fólk rækti undan sýndum gæðingum. Djöfull er gaman að finna taktana og hreyfingarnar í þessum gripum. Þótt þetta verði ekki topp stóðhestar í framtíðinni þá verða þetta hörku reiðhross.
Fjögra vetra tryppin eru líka í góðum gír. Gleði er svo vakandi og fús áfram. Við erum byrjaðar að æfa tölt. Hún er klárhross og ég þurfti aðeins rifja upp hvernig ætti að gangsetja þau. Ég hef alltaf verið með miklu meira af alhliða hrossum. En núna er daman byrjuð að dilla upp af safnaða fetinu. Hún er nú ekki alveg að skilja afhverju hún má ekki bara brokka. Hún getur brokkað á fet hraða og er alveg til í að minna mig á það þegar ég byrja með töltæfingarnar. Meira að segja Dagur er farin að sýna framfarir. Þrekið hefur aukist hjá honum sem var algjör forsenda fyrir því að geta farið að gera eitthvað meira. Hann var ekki alveg að nenna þessu, þetta var allt óþarflega erfitt. En núna erum við farin að vinna í því að halda okkur á einni gangtegund í einu og hann á auðvelt með að tölta. Hann er ekki alltaf sammála mér í því hversu langir töltkaflarnir eiga að vera en hann lætur sig hafa það. Prógrammið hans Dags í vetur hefur fengið nafnið "litli ljóti andarunginn". Það markmiðið, hann á að verða að svani í vor.
Ísold hefur aldrei verið betri, enda bara sex vetra. Hún átti það ansi mikið til að verða skeiðtöktuð á tölti og brjóta brokkið. En það er af sem áður var. Brokkið hefur stórbatnað eftir æfingar í því að lækka höfuðburðinn á brokki og láta hana styðja sig aðeins við tauminn. Hún nebbla svo taumlétt að það var við það að valda vandamáli. Töltið er líka orðið betra. Hún getur orðið tölt á öllum hraða og skeiðtakturinn farinn.
Að lokum er það hún Ára mín. Hún er elsta hrossið í húsinu og hefur verið erfiðust. Hún er svo treg til að gefa sig í hnakkabandinu. Henni finnst mest gaman að reka nasirnar upp í loft, liggja á taumunum og bruna áfram á fullri ferð. Mér finnst það hins vegar ekki gaman. Þótt hún sé með stuttan háls og þykka kjálka þá getur hún brotið sig betur en hún er að gera. Ég er ekki að biðja hana um neitt sem ég veit ekki að hún geti. Það eru því búnar að vera miklar æfingar í því að lækka höfuðburð og slaka á hnakkabandinu. Við vorum til dæmis í rúman klukkutíma upp í gerði eingöngu til þess að láta hana gefa eftir. Byrjuðum á fimiæfingum, söfnuðu feti og þar fram eftir götunum. Þetta endaði svo í þrjóskukeppni, hvor myndi gefast upp á undan. Við vorum báðar orðnar þreyttar og sveittar þegar við hættum. Daginn eftir ákvað ég að fara í léttan og stuttan brokkreiðtúr, svona til að hún fengi ekki harðsperrur og svona, hélt nú að daman yrði svo lítið eftir sig. Hún hélt nú ekki. Var alveg til í að bruna áfram á fullri ferð og lét eins og ekkert hefði gengið á daginn áður. Ég fann hins vel fyrir harðsperrum. Í dag ákvað ég að skella upp í hana stangamélum. Bara svona til að fá hana til að gefa einu sinni eftir. Við höldum svo áfram með hringamélin á morgun. Hún var nú ekki ánægð og fannst ég vera að svindla með þessum hjálpartækjum. En hún gaf sig, eftir smá múður. En hún minnti mig líka rækilega á það hvers vegna ég er að leggja þetta á mig. Það er ekkert smá tölt í þessari skepnu. Hvort sem það er á hægu eða yfirferð. Ég á eftir að lifa á þessum reiðtúri næstu vikurnar.

|

Saturday, January 10, 2009

Þegar á reynir - þá treysti ég á sjálfan mig og gamla rauð
Nú er tamningardaman mín að fara í Hólaskóla. Það væri allt saman gott og blessað en það vantar bara herslumuninn á að graddatittirnir séu alveg formlega reiðfærir. Það hefur ekki enn verið farið á þeim einum í reiðtúr. Sem er bara góður árangur þar sem það bara búið að vinna í þeim samtals í fimm vikur, smá jólafrí. En ég hef engan til að trilla með mér á þeim. Ég er búin að reyna að tala við tvo tamningarmenn um að taka þá í áframhaldandi tamningu en það hefur ekki gengið. Það er því ekki um mikið annað að ræða, ég verð bara að gera þetta sjálf. Ég fór á þá báða í dag, úti í gerði, en það gekk vel. Ég ætla því að bara að sjá hvað ég kemst langt með þá. Mér líst alla vega vel á svörunina sem ég fékk í dag.
Gamli rauður er bílinn minn, 12 ára toyota hilux. Þessi sem fór í dýru viðgerðina í haust. Hann þurfti reyndar að fara aftur í viðgerð í vikunni en það reyndist minni háttar. Það er eins gott að hann sé í topp standi núna. Þið mynduð ekki trúa því hvað ég þarf mikið á þessum bíl að halda. Og þá meina ég þessum bíl, ekki bara einhverjum bíl. Ég er algjörlega upp á hann komin með að sinna útiganginum mínum. Ég nota hann til að draga rúllurnar til. Hann sýndi nú hvers hann er megnugur í snjónum fyrir jólin. Það var töluverður snjór upp í bústað en sá gamli lét það ekki stoppa sig. Upp eftir fórum við og rúllu náðum við í þrátt fyrir 30cm djúpan snjó og dýpri þar sem hafði skafið skafla. Ég er búin að segjast ætla að eiga þennan bíl í tvö ár í viðbót í sennilega þrjú, fjögur ár. Ég ætla bara að eiga þennan bíl þar til hann hrynur undan mér. Þarfari þjón hef ég aldrei átt.

|

Sunday, January 04, 2009

Örlagadagur
Suma daga gerist eitthvað sem verður til þess að þú breytir lífi þínu. Hjá mér var 4. janúar 2006 þannig dagur.
Ég hefði sennilega ekki trúað því þá en það sem gerðist þennan dag varð, um síðir, til góðs. Það sem gerðist var hins vegar ekki gott. Hann Glymjandi frá Efsta-Dal, sem er hestur, hennti mér af baki og það mjög einbeittur brotavilji af hans hálfu því ég datt ekki af fyrr en í fimmtu stungu. Hann skildi mig svo eftir, liggjandi í myrkrinu, með mjög sáran verk í mjöðminni sem var svo slæmur að þegar ég reyndi að standa upp þá leið næstum því yfir mig og ég hrundi niður aftur. Hann sem betur fer hljóp aftur heim í hesthúsahverfið og fólkið sem fann hann áttaði sig á að eitthvað hafði farið úrskeiðis og kom og bjargaði mér. Ég rakti þessa sögu hér þá, minnir mig, en í fáum orðum endaði ég á spítala yfir nótt, sem betur fer óbrotin en mjög bólgin.
Vikurnar á eftir átti ég mjög bágt, bæði andlega og líkamlega. Ég hafði aldrei á ævinni verið jafn þung og ég var orðin þá og líkamleg geta var eftir því. Ég var auk þess með töluverða verki eftir fallið og áttaði mig á því hvað ég komin langt niður líkamlega. Ég setti sjálfri mér úrslita kosti. Ég gæti ekki haldið áfram að ríða út komin í þennan þyngdarflokk, ég hafði hreinlega ekki getuna í það auk þess sem það væri varla hægt að bjóða hestunum mínum upp á þetta. Annað hvort hætti ég í hestamennsku og héldi áfram að troða mig út eða ég tæki á mínum málum og myndi létta mig verulega. Sem betur fer ákvað ég ekki að gefast upp og nú, þremur árum seinna, er ég 30 kílóum léttari.

|

Friday, January 02, 2009

Aaaa, allt að verða búið
Þá get ég bráðum um frjálst höfuð strokið. Allt þetta jóla og nýársstúss búið.
Ég nenni nú ekki að fara að rifja upp allt síðasta ár en í minni fjölskyldu flokkast 2008 sem gott ár. Nánasti ættingi sem dó var afabróðir á tíræðisaldri sem dó saddur lífdaga í faðmi stórrar fjölskyldu. Og ár sem fólk er ekki að deyja fyrir aldur fram er yfirleitt ágætisár. Enginn var alvarlega veikur eða slasaðist. "Tvibbinn" eignaðist son og gifti sig núna í árslok. Við töpuðum ákaflega litlu í bankahruninu og í raun engu sem er þess virði að telja upp. Við, nánasta fjölskylda, eigum þak yfir höfuðið og salt í grautinn. Já, alls ekki svo slæmt ár.
Hrossin lifðu líka af áramótin. Ég hafði miklar áhyggjur af þeim sem eru upp í bústað. Þau eru svo nálægt bænum að það hefði getað farið illa. Ég kíkti eftir þeim tvisvar á gamlársdag og svo strax eftir miðnættið. Þau voru ókyrr og spennt, höfðu greinilega verið hlaupa aðeins um en voru öll á sínum stað og ósár svo það ætti að vera í lagi. Ég hafði í raun mestar áhyggjur af Grímu sem er fylfull. En ég hef enn ekki fundið hálfþroskað fóstur neinsstaðar svo ég vona það besta.
Það hlýtur að hafa verið óvenju gott músasumar eða ég þarf að fara að setja hesthúsakettina á eftirlaun og yngja upp. Þegar ég kom upp í hesthús á gamlársdag var mús á miðjum fóðurganginum. Hún hefur sennilega verið að ylja sér við rafmagnsofninn sem ég er með til að losna við rakann. Þegar hún sá mig koma inn ákvað hún nú að trítla í burtu en var ekkert að flýta sér. Hún stoppaði meira að segja til að klóra sér aðeins bakvið eyrað áður en hún fór svo inn í hlöðu. Ég stóð bara eins og bjáni og horfði á hana, ég átti ekki til orð.
Í bili óska ég bara öllum gleðilegs árs og þakka liðin ár.

|