Sunday, March 29, 2009

Stóðhestastand
Ég fór með stóðhestana mín til eins af virtari knöpum landsins um helgina til að athuga hvað honum fannst um drengina, hvort hann vildi taka þá í þjálfun og sýna þá. Svarið var nei. Efnilegir reiðhestar, sá bleikálótti fallega byggður en stæðust ekki alveg kröfurnar í dag. Þá er spurning hvað skal gera næst. Finna einhvern annan til að þjálfa og sjá svo til? Gefa drengjunum annað ár og sjá hvernig þeir þróast? Eða bara gelda í haust? Ég þarf sem betur fer ekki að svara þessu alveg strax og ætla ég að nýta mér þann gálgafrest.
Á leiðinni heim mætti ég bíl með þetta númer, PEN15. Ég held að það sé ekki óvart að ég sá ekki strax að seinni hlutinn væri 15. Eða kannski er ég bara með svona sóðalegan hugsunarhátt.

|

Thursday, March 19, 2009

Nei, ég er ekki dauð
Ég var bara fá nýjan router og svo hef ég bara ekki nennt að kíkja á netið.
Það gengur annars allt vel, sérstaklega með hrossin. Stóðhestarnir farnir að tölta. Mér, persónulega, finnst Hlér betri reiðhestur þótt Glaumur sé óneitanlega fallegri. Gleði er búin að vera að reyna að koma sér undan því að tölta með því að setja nefið upp í loft. Ég benti henni vinsamlegast á það að það væri þegar ein Ára í húsinu og það væri ekki þörf á annari. Það tók nokkra reiðtúra en ég held að hún sé að átta sig á því að hún fær ekki að komast upp með þetta.
En fyrst ég nefndi Áru. Hún er komin niður með hausinn en það var ekki þrautalaust. Ég fór á þessu fínu kennslusýningu / fyrirlestur hjá Mette Manseth um form og líkamsbeitingu hrossa og ákvað strax að hefja þessar æfingar á Áru. Daman sú var sko ekki sátt og fyrst hún gat ekki komist undan því sem hún átti að gera á neinn annan hátt þá fór hún ítrekað með tunguna yfir mélin. Þannig að ég greip til þess gamla ráðs að binda niður í henni tunguna. Og þegar ég gerði það og lét hana svo gera æfingarnar hennar Mette, þá kom hausinn niður. Og nú næ ég hausnum á henni niður án þess að vera með tunguna bundna. Hún er ekki alls kostar sátt við þetta enn og oft er þetta gífurlegt reipitog að minna hana á höfuðburð og hraða en hún er með hausinn niðri.
Ég hugsa að ég fari að kippa honum Úlfi inn á næstunni. Ekki það að hann braggist ekki vel heldur ætla ég að nota hann sem félagsskap fyrir einu hryssuna í folaldahópnum. Það fer að líða að þeim tíma að það verður að fara að kynjaskipta leikskólanum og hann er kastaður svo seint að hann ætti að vera öruggur aðeins lengur.
Ég læt þetta gott heita í bili. Reyni að láta ekki líða svona langt á milli blogga næst.

|