666Fyrir rúmum mánuði var ég beðin um að vera í umhverfisnefnd hestamannafélagsins míns. Þessi nefnd hefur engan annan tilgang enn að skipuleggja tiltektardag þar sem tekið er til í hverfinu og með fram reiðstígunum. Þar kom vel á vondan, því ég hef aldrei nennt að taka þátt í þessum árlegu tiltektardögum. Held samt ekki að það hafi verið ástæðan fyrir því að ég var beðin um að vera í nefndinni. Tel líklegra að ástæðan sé sú að ég var ein af fjórum sem mætti á svæðið í haust til að taka drasl meðfram fjölförnum reiðvegi. Hugmyndin var sú að við þessi sem værum byrjuð að ríða út myndum taka mesta draslið sem var vissulega að trufla hrossin okkar. Ég var líka eina konan í nefndinni, sýnishorn af tegundinni, skrautfjöður, kynjakvóti, allt líklegar ástæður einnig sem skipta engu máli.
Ég gerði mitt besta fyrir undirbúninginn, sem var ekki mikið. Aðrir í nefndinni virtust þekkja alla sem þurfti að tala við hjá bænum og öðrum nefndum. Ég vissi ekki einu sinni hvað allir í nefndinni hétu fyrr en á öðrum fundi. En ég bar út tilkynningar og virtust allir sáttir við það vinnuframlag.
Í dag var svo tiltektardagurinn sjálfur og mætti ég galvösk og hirti upp reiðinnar býsn af rusli. Mæting var mjög góð, margar hendur unnu létt verk og við vorum fljótt búinn.
Og svo kemur loks ástæðan fyrir þessum pistli. Ég hef ekki mætt á hina tiltektardagana af hluta til vegna þess hvað tilkynningarnar voru heimskulega orðaðar. Þar þurfti í hvert einasta sinn að segja það að þeir sem ekki myndu mæta væru latir sjálfselskupúkar sem létu aðra sjá um verkin. Það var í raun verið að reyna að láta fólk skammast sín til að mæta. Svona fer í taugarnar á mér. Þeir mæta sem nenna og geta. Það er alltaf þannig þegar þú tilheyrir einhvers konar félagsskap að sumir leggja meira mörkum en aðrir. Þetta á við alltaf, allsstaðar, hjónabandi, fjölskyldum, félagastamtökum, þjóðfélögum. Ef þú vilt ekki sætta þig við það verður þú bara að hírast einn út í horni. Það hvarflaði ekki að mér að vera með einhverja fýlu út fólk sem mætti ekki eða vinna ekki nema visst mikið því það væri minn hlutur og einhver annar ætti að taka hitt. En það var greinilegt að ekki allir voru sammála mér. Einn gamall karl varð að láta leggja fram lista þar sem þeir sem voru mættir gætu skrifað sig. Hvers vegna? Á að birta þennan lista einhverstaðar og þá til hvers? Það þarf engin að vita það að ég hafi mætt þarna og tekið til. Samfélagar mínir í hverfinu mega bara njóta þess að ríða um hreinar götur og þurfa ekkert að þakka mér fyrir það. Ég ætla heldur ekki að fara að vera með einhverja stæla við fólk sem mætti ekki.
Guð, hvað mér leiðist fólk sem þarf alltaf að vera að hreykja sér af öllu sem það gerir.
Titillinn tengist umræðuefninu ekkert. Þetta er bara færsla númer 666.