Búið að vera brjálað að gera
Aldrei þessu vant hef ég ekki bloggað vegna þess að það hefur verið svo mikið að gera.
Ég ákvað að slá bara til og sleppa Glaum og er hann kominn í vist í Sandhólaferju. Hlér greyið var hins vegar geltur. Verst að núna er hann bara svo helv... rennilegur eitthvað og fallegur. Jæja, það er búið og gert. Ég er líka komin með alveg upp í kok af stóðhestum.
Gömlu konurnar, Glóey og Kvika, voru leiddar undir stóðhesta. Kvika skrapp austur undir Klæng frá Skálakoti. Glóey fékk hins vegar ungan dreng færðan í bæinn, bara fyrir hana. Það var hann Viktor frá Reykjavík sem ég á undan Ófeigi frá Þorláksstöðum og Drífu frá Skálmholti. Það var heilmikið mál að vera með hann á húsi í þessa rúmu viku. Hann fleygði sér yfir innréttingarnar með látum og þurfti að setja upp nokkrar fyrirstöður til að halda honum inn í stíu. Ára var búin að fara undir áður nefndan Glaum frá Reykjavík, undan Óði frá Brún og Glóey frá Holti. Nú þarf bara aðeins að bíða áður en ég fer að rúlla með liðið í sónar.
Úlfur frá Seli, undan Ramma frá Búlandi og Kviku frá Saurbæ, var geltur í vikunni. Hann er vetur gamall og búinn að vera á útigangi. Það var stuð að koma honum á kerru þegar ég tók hann úr haganum. Naut ég við það mikillar hjálpar frá henni Áru minni sem skildi lítið í því hvers vegna hún þurfti sífellt að vera að bakka aftur út úr kerrunni. Úlfur var þá búinn að detta um koll af öllum látunum í sér og hjékk á hausnum í múlnum. En hann komst um borð fyrir rest og daginn eftir þegar hann var keyrður á Dýraspítalann og sóttur aftur var eins og hann hefði aldrei gert neitt annað að vera settur á kerru. Það var mikið dáðst að honum á spítalanum fyrir hvað hann var samvinnuþýður og stilltur. Jamm, það gott að þau sáu hann ekki daginn áður.
Síðast en ekki síst er ég búin að vera í brjálaðri girðingarvinnu upp í bústað og hrossin komin með myndarlegt stykki til að rölta um og bíta.
Ég er sem sagt búin að ganga gjörsamlega fram af mér undan farna daga og er öll í harðsperrum og verkjum. Ég hef gert einhvern andsk... við hægri olnbogann á mér og er farin að hallast að því ég þurfi að láta kíkja á hann ef hann fer ekkert að skána. En ég ætla sko bara að taka því rólega næstu daga.