Allt að gerast núna
Þá er ég komin með leigusamning við Reykjavíkurborg og hef þar með formlega hafið leigu á 5hekturum sem liggja að mínu landi. Ætti þar með að vera í góðum málum næstu árin. Sérstaklega ef hrossunum fjölgar ekki mikið. Yeah, right.
Ég dreif mig upp í bústað til að grafa fyrir tveimur hornstaurum fyrir rúllustæðið mitt. Fyrst ég var byrjuð að grafa þá ákvað ég grafa nokkrar holur svo ég gæti sett smá skjól fyrir greyin. Þau fá ekki að komast bak við bústaðinn í vetur þar sem grenitréin gáfu þeim frábært skjól síðasta vetur. Endaði með að grafa sjö holur. Þetta verður fínt skjól ef ég dríf fljótlega að kaupa staura og byrja að smíða.
Ég fór hins vegar upp á Kjalarnes til að smíða þar. Er búin að búa til þetta fína aðhald sem ég get bakkað hestakerrunni upp að. Þá ætti ekki að vera mikið mál að koma hrossunum og þá sérstaklega folaldsmerunum upp á kerru þótt ég sé ein á ferð. Hún Gríma mín er ekki jafn samvinnuþýð og hún Kvika. Kvika leyfir mér strax að komast að folöldunum sínum og í síðustu skipti voru þau svo spök að ég gat sett á þau múl út í haga og dregið þau með mömmu upp á kerruna. Gríma hins vegar vill ekki leyfa mér að koma nálægt folaldinu sínu. Hún er reyndar orðin rólegri með haustinu en þá fæ ég allt of mikla athygli frá öðrum hrossum þegar ég reyni að nálgast Tristan. Þannig að ég varð að vera undirbúin fyrir það að færa þau. Vona að þetta geri gæfumuninn.
Stóðhestastíurnar mínar eru langt komnar og verða kláraðar næstu helgi. Ekki seinna vænna því drengirnir eiga að koma í hús helgina þar á eftir eða um mánaðarmótin. Og þá fer fjörið að byrja.