Wednesday, November 25, 2009

Veturinn byrjaður fyrir alvöru
Ég flutti allan útiganginn upp í bústað á fimmtudaginn síðasta. Gekk eins og í lygasögu. Gat komið folaldsmeri og 1, 2 og 3 vetra tryppum ein á kerru. Flutti alls tólf hross. Tók allan daginn en það hafðist. Fór með Glóey og Áru í sónarskoðun og þær eru báðar fylfullar. Glóey hefur tvisvar ekki fyljast á síðustu þremur árum og Ára hefur aldrei fyljast áður, þótt ég hafi reynt að halda henni áður. Þetta jaðrar við kraftaverk og ég átti í raun ekki von á að þetta myndi takast. Þannig að hann Viktor á von á tveimur afkvæmum.
Það gengur vel með drengina í tamningu. Járningin tókst eins vel og hægt var að vonast til. Og nú er byrjað að fara í reiðtúr með drengina. Þeir auðvitað elta bara annan hest en það gengur vel. Gabríel er með þvílíkt flottar hreyfingar og vinkil fótalyftu. Tamningardömuna langar nú þegar að kaupa hann. Það stendur í raun ekki annað til en að selja drenginn en ekki fyrr en í vor og þá vonandi fyrir gott verð. Það væri ekki verra ef hann væri með fyrstu einkunn í kynbótadóm og búinn að fylja allar hryssur sem ég á, sem eru komnar með aldur til, áður en hann verður seldur.
Það gengur líka vel með Viktor en hann er ekki að sýna sömu takta. hann er reyndar með topp niður á nasir og fax niður á bóga, þriggja vetra. Ef þetta er ekki 10 fyrir prúðleika þá veit ég ekki hvað þarf til. Hann er tilkomumikill á húsi og allir sem ganga fyrst að honum þegar þeir koma í húsið.
Útigangurinn var að klára fyrstu rúllurnar sínar í dag. Þau hafa beit, svo það er ekki eins og þau séu að svelta. En þið hefðuð átt að sjá svipinn sem ég fékk í dag þegar ég kom til að vatna þeim og þau áttuðu sig á því að þau fengu ekki heyrúllu strax. Þetta eru algjörar dekurdollur. Sá eini sem var alveg sáttur við ástandið var Óli Prik, sem hefur ekki verið áður hjá mér.
Kettirnir í hesthúsinu hjá mér eru alveg að fara með mig. Ok. það var ekki eins og þeir ættu að vera einhverjir músabanar. Ég var í raun bara að skjóta skjólshúsi yfir fleiri ketti. En í alvöru. Í gær kemur Oliver hlaupandi að húsinu þegar ég renni í hlað með mús í kjaftinum. Þegar hann sér mig þá sleppir hann músinni, sem var lifandi og skaust í burtu, til að geta komið og heilsað mér. Sem var í góðu lagi, ekki vantar fleiri mýs í húsið. Það var reyndar hálf étin mús inn í húsi, ekki það geðslegasta. En þegar ég sit inn á kaffistofu að hlýja mér þá heyri ég hljóð eins og einhver sé að gramsa í kattarmatnum. Sem var skrítið því báðir kettirnir voru sofandi í sitthvorum stólnum. Kattamaturinn er úti í horni, þar sem niðurfallið úr vaskinum fer út og ekki alveg lokað fyrir með parketti vegna þess. Ég fór að athuga málið. Það er sem sagt mús sem nær sér í mat úr diskunum sem kettirnir eiga og það hvarflar ekki að þeim að reyna að ná henni!!! Í fyrra tók þá viku að ná mús á kaffistofunni sem annar þeirra kom með inn lifandi til að byrja með. Og nú er mús að éta matinn þeirra og þeir gera ekki neitt. Ég á ekki til orð.

|

Saturday, November 14, 2009

Ég var búin að blogga helling í gær en allt datt út þegar ég reyndi að posta það. Ég reyni aftur.
Búin að fá slatta af heyi fyrir útiganginn. Búin að ganga frá staurum og að mestu leyti girðingu í kringum rúllustæðið. Á bara eftir að klára negla borð á skjólvegginn minn. Og þá get ég byrjað að færa hrossin. Þótt beitin dugi fram í desember þá eru þau svo mikil átvögl að þau verða búin að naga allt niður. Get ekki farið með landið svona annað árið í röð. Kemur bara í bakið á mér næsta vor. Þannig fyrst allt er að verða til þá er bara best að flytja þau og byrja að gefa út. Fékk heyið á betra verði en ég þorði að vona svo það kemur ekki að sök.
Held að Glaumur minn hafi farið verr út úr útlegðinni en ég hélt fyrst. Hann var og er hálf tuskulegur með hnjóska, þunnur á síðu og belgmikill en laus. Búinn að fá rándýrt ormalyf til að það sé örugglega engin óværa í honum. Svo hefur aðeins tafist að hefja þjálfun á honum svo ég fór með hann út í hringgerði til að láta hann hreyfa sig aðeins. Þvílík hörmung. Það var hvergi að sjá þessar fallegu miklu hreyfingar sem hann sýndi síðasta vetur og vor. Rétt lufsaðist áfram með hálfum hug. Mér var ekki skemmt. Drengurinn verður í gjörgæslu í vetur.
Ég var búin að járna Dag sjálf, sem gekk hálf brösulega, og ætlaði að byrja að ríða út. Drengurinn var eitthvað hálf snúinn við mig. Fór að skoða hann betur og það kom í ljós að hann er með aðeins meiri hnjóska en ég hélt fyrst. Þannig að hann hefur fengið frið síðustu daga.
Svo á að járna Gabríel og Viktor á morgun. Fyrsta járning hjá báðum en við erum búin að æfa vel fyrir það. Á ekki von á öðru en það gangi vel.
Jæja, kalla þetta gott í bili. Er farin að vera svo helv... þreytt á kvöldin. Er að verða gömul eða eitthvað.

|

Wednesday, November 04, 2009

Vel upp aldir drengir
Þá er búið að gefa ormalyf, raspa tennur og raka undan kvið. Það er eins og þeir hafi aldrei gert neitt annað þessir drengir og eru þó á aldrinum 3, 4 og 5 vetra. Þá á bara eftir að járna og við æfum stíft fyrir það. Lappir teknar upp og bankað í og þeir kippa sér ekki upp við neitt. Hlakka mikið til þegar verður búið að járna. Get ekki beðið eftir að sjá betur hreyfingar bæði í hringtaum og undir manni.

|

Sunday, November 01, 2009

Drengirnir komnir í hús
Þá eru öll þau hross sem eiga að koma í hús, komin í hús. Að þessu sinni eru þetta allt hestar, þrír stóðhestar og tveir geldingar. Annars á ég níu hryssur en engin þeirra verður á húsi í vetur. Stóðhestarnir eru að fara í tamningu og þjálfun og mun það verða það dýrt að ég ætla að bara að hafa þessi fimm hross á húsi.
Stóðhestastíurnar eru auðvitað tilbúnar og er ég mjög fegin. Það var mjög gott að geta sett þessa tvo ungu drengi í öruggar stíur. Ég man að í fyrra var ég mjög alvarlega að íhuga að gelda hina tvo fyrstu vikuna sem þeir voru á húsi. Það er tvennt ólíkt að hafa geld hross á húsi en stóðhesta. Glaumur er reyndar bara í opinni stíu en hann er bara pollrólegur eins og hann var orðinn í fyrra. Hann reyndar aðeins hnjóskaður og svolítið tætingslegur en í ágætum holdum.
Þá er bara næsta skref að koma þessu á járn og raspa tennur. Það verður örugglega gaman að járna enda tveir þriggja vetra, tveir fjöggra vetra og einn fimm vetra. Þeir eru nú reyndar alveg ágætir í að láta taka upp lappir enda var byrjað að æfa það folaldsveturinn. En við munum æfa það stíft næstu daga.
En ég mun líklega vera í eða við hesthúsið á daginn, út veturinn svo ef einhverjir vilja heimsækja mig og fá smá hestalykt og stemmningu eru þeir velkomnir.

|