Wednesday, December 30, 2009

Gríma og Tristan fóru aftur út í haga eftir vikudvöl inni. Drengurinn var orðinn spakari og búið að setja á hann múl og teyma í rassreipi svo og taka upp lappir og klippa hófa. Hann er miklu hugrakkari að koma og þefa af mér núna út í haga og þegar það verður orðið aðeins hlýrra þá fer ég að eyða meiri tíma í að spekja hann meira.
Ég notaði ferðina og kippti Gleði minni inn. Það var alveg orðið klárt í mínum huga að hún kæmi í hús. Það skipti ekki öllu máli hvort það væri fyrir jól eða eftir áramót.
Rauðhetta er klár í tamningu. Það er búið að raka hana bæði undir kvið og undir faxi. Búið að raspa tennur og það var járnað í gær. Hún var alveg til fyrirmyndar í járningu og við hreinlega gleymdum að gefa henni hey meðan var verið að járna hana í fyrsta skipti eins og við gerum venjulega með tryppi í fyrstu járningu. Ljóta flækjan í taglinu er líka farin. Við vorum sko búnar að eyða töluverðum tíma í það. Og svo auðvitað búin að fá ormalyf líka. Ég gaf reyndar öllum hrossunum ormalyf fyrst litli gaurinn var með orma. Hætt við að allt hafi verið smitað og bara eins gott að kæfa það í fæðingu, ormana það er að segja.
Graddarnir eru búnir að vera í fríi yfir jólin og eru alveg ótrúlega stóískir yfir öllu sem gengur á. Ég rakaði þá undir faxi, eins og reyndar öll hrossin í húsinu. Á hverju ári ákveð ég að gera það ekki því mér finnst það svo ljótt og svo þegar byrjar að líða á og þau fara að losa hár byrja þau að klóra sér og þá átta ég mig á því að það er ástæða fyrir því að ég enda alltaf á að raka. Kannski að reyna að muna það næsta vetur.
Og svo er bara að vona að allir komist klakk laust í gegnum áramótin.

|

Saturday, December 19, 2009

Nýjustu hestafréttirnar
Gríma er ekki fylfull. Og dýralæknirinn segir að ég sé allt of stressuð. Hún sé alveg í eðlilegum holdum miðað við mjólkandi hryssu og hún sé laus og fín á síðu. En það var eins gott að ég kippti þeim inn, litli drengurinn minn var með orma.
Yfirleitt þegar ég sæki hryssu og folald til stóðhests þá splæsi ég í rándýrt ormalyf sem er mjög breiðvirkt og drepur bara næstum allt. Það var ekki til þegar ég sótti mæðginin þannig að ég gaf þeim bara ormalyf úr brúsa sem ég kaupi að jafnaði fyrir stóðið. Ég er mjög dugleg að ormhreinsa og hrossin mín eru almennt ekki í bland við önnur hross þannig að nýsmitun ætti að vera lítil. En í haust fékk jú leigða aðra spilldu sem önnur hross hafa verið á og litli gaurinn fékk ekki fína ormalyfið þegar hann kom úr stóðinu. Svo til að bæta gráu ofan á svart þá gleymdi ég að gefa þeim ormalyf þegar ég flutti þau í vetrarbeitina.
Þannig að, þótt ég hafi haft óþarfa áhyggjur af Grímu þá leiddi það til þess að Tristan var ormahreinsaður, sem var greinilega nauðsynleg, og hann er orðinn spakari og er búinn að fá á sig múl og vera teymdur í rassreipi og búið að taka upp lappir og klippa hófa. Þannig að, fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott.
Ég ætla að kippa inn Gleði um leið og þau mæðgin fara út aftur. Um að gera að nota ferðina. Og þá þarf ég að heyra í járningamanninum um hvort henti betur að járna Gleði og Rauðhettu fyrir jól eða milli jóla og nýárs. Þá get ég líka fengið dýralækni til að raspa í þeim tennur.
Annars er Rauðhetta laus við hnútinn úr taglinu og bara með þetta fína tagl. Hún lét þetta yfir sig ganga en henni fannst ekkert sérstaklega gaman að standa á ganginum á meðan ég var að greiða niður úr þessari flækju.
Tamningardaman er farin til Danmerkur til að hitta fjölskylduna yfir jólin. Ungu drengirnir eru því komnir í jólafrí. Enda eiga þeir það vel skilið. Búnir að standa sig með þvílíkum sóma og orðnir vel reiðfærir.

|

Saturday, December 12, 2009

Notaði sumarfærðina til að ná í hana Rauðhettu á miðvikudaginn. Þrátt fyrir leiðinda rigningu í Reykjavík var þetta milda og fína veður á Seli þannig að það var lítið mál að fara að ná í dömuna. Gekk mjög vel að koma henni á kerru og vorum við bara tvö í því.
Ég ákvað að leyfa henni að jafna sig í einn dag áður við hæfum undirbúning fyrir tamningu. Svo við byrjuðum að taka upp lappir á föstudeginum. Það gekk svona ljómandi vel að á laugardeginum byrjuðum við að klemma framlappir í járningastöðu og banka í. Það voru lítil viðbrögð við því einnig. Við erum líka byrjaðar að tæta niður úr flækju hnútinum í taglinu. Er okkur strax orðið ágengt við það. Hún er ekki alveg bandvön daman þótt ég hafi komið henni þangað sem hún á að fara. Það er næst að taka skurk í því en ég er eiginlega að bíða eftir að það hætti að rigna svona mikið.
Vegna þessarar leiðinda rigningar undan farið hef ég verið löt að skoða útiganginn náið. Þau eru með hey og ég læt renna vatn fyrir þau á hverjum degi. En í staðinn fyrir að ganga á milli og heilsa upp á þau hef ég setið inn í bíl eins og klessa til að rigna ekki niður. Þar sem það var svona alveg skítsæmilegt veður meðan ég var að gefa þeim vatn í dag ákvað ég að rölta á milli og þreifa á þeim. Glóey gamla er ekki og hefur ekki verið mjög feit á síðu en hefur ekki verið að leggja af og er laus. Öll önnur hross hafa verið spikfeit. Mér til mikillar skelfingar er hins vegar hún Gríma mín allt í einu orðin þunn á síðu og finn ég greinilega öll aftari rifbein. Hún hefur lagt töluvert af þrátt fyrir að vera komin á útigjöf og hafa alltaf staðið í heyinu þegar ég kem. Ég verð því greinilega að kippa henni og folaldinu inn og láta líta á dömuna. Spurning er hvort hún sé fylfull þrátt fyrir að hafa verið sónuð neikvæð. Eða hvort folaldið sé að ganga svona nærri henni. Ég veit ekki hvað er en þetta er alla vega ekki nógu gott mál.

|

Saturday, December 05, 2009

Allt að koma
Það gengur vel með stóðhestana. Ungu drengirnir eru farnir að fara einir í reiðtúr. Sem mér þykir bara nokkuð gott. Tamning hófst í byrjun nóvember. Viktor er farin að hækka á framhlutan og farin að líta betur út. Ég gæti trúað að hann leyni á sér.
Glaumur er að hressast. Hann fær bara sjö kíló af heyi á dag. Auk þess keypti ég tuttugu kíló af vítamínblöndu handa honum á rúmar áttaþúsund krónur. Það ætti reyndar að duga í allan vetur. En það er ekkert ódýrt í þessari hestamennsku. En ef það hjálpar honum þá reyni ég allt.
Ég stefni á að sækja hana Rauðhettu núna um miðjan desember. Fer svolítið eftir færð og veðri hvenær það verður. Ég hlakka til að sjá dömuna. Hún verður hjá mér í tveggja vikna dekri og dúttli áður en tamning hefst. Koma undir hana skeifum og svona.
Mig langar alveg hrikalega að taka hana Gleði mína inn og er að hugsa um að láta það eftir mér. Stefni á byrjun nýja ársins.
Útigangurinn er hress. Étur auðvitað allt of mikið. Sem betur fer eru gömlu merarnar frekastar og hleypa ungviðinu með sér þannig að það eru geld hrossin sem lenda í jaðrinum þegar rúllan er að klárast sem er auðvitað hið besta mál.

|