Wednesday, April 27, 2011

Hvað gerðist eiginlega?
Var að lesa gamlar bloggfærslur hjá mér og margar hverjar bara þrælskemmtilegar. Svo fór ég allt í einu yfir í leiðinlegar upptalningar á því sem ég var að gera í hesthúsinu. Og loks hætti ég alveg og fór á facebook. Bara gengur ekki. Ég ætla að vona að ég nái aftur gömlum töktum.
Ég ætla að byrja á gömlu umkvörtunarefni, útvarpinu. Ég hlusta mikið á útvarpið, aðallega í bílnum, og ég keyri enn mikið. Ég hlusta á bylgjuna. Þar er spiluð tónlist við mitt hæfi og fréttir á hverjum klukkutíma. Því miður þykir hlátur gott útvarpsefni á bylgjunni. Útvarpsmenn hlægjandi eins hross í tíma og ótíma. Verstur af öllum er Hemmi Gunn. Ekki mikið skárri er einhver dama sem er kölluð Svansí. Útvarpsmenn hlægjandi eins og fífl af léglegum einkabröndurum er ekki gott útvarpsefni.

|

Tuesday, April 26, 2011

Eitt ár, einn mánuður og einn dagur
Sem ég lét þetta blogg sitja óhreyft.
Mikið búið að gerast í hestamennskunni. Hlér seldist síðasta haust, til að vera barnahestur. Held að hann hljóti að vera ánægður með lífið og tilveruna. Hann lítur alla vega vel út. Hef séð hann í hverfinu.
Það gekk allt á afturfótum síðasta árið. Þjálfarinn sveik mig þegar á reyndi. Eins og það væri ekki nóg kom hóstapestin víðfræga fljótlega í kjölfarið. Ég sökk í andlega ládeyðu og hlóð á mig aukakílóum. Sat uppi með þrjá stóðhesta sem þurfti að koma fyrir. Það reddaðist samt. Ég fékk líka meðeiganda að Gabríel svo ég losnaði við kosnaðinn af honum.
Er búin að vera með sex hross á húsi í vetur. Varla druslast á bak. Erfitt þegar maður er bæði andlega og líkamlega þungur.
Lét gelda Viktor og sé ekki eftir því, hann var bara ekki stóðhestsefni. Hann er samt flottur með þetta síða fax, meðan hann stendur kyrr.
Loksins þegar ég var að komast af stað varð ég fyrir óhappi. Ég var upp í Líflandi að versla spónaköggla, fóðurbæti og saltsteina. Ég var að ná í kassa af tveggja kílóa saltsteinum og gætti ekki að mér. Það var eitthvað drasl á gólfinu sem ég tók ekki eftir og ég flaug á hausinn með kassann í fanginu. Það tók mig þó nokkurn tíma að ná andanum því ég lenti á kassanum með neðstu rifin og þindina. Fyrst til að byrja með var mér aðallega illt í olnboganum sem ég lenti á líka en þegar leið á daginn kom annað og verra í ljós. Ég hafði rifbeinsbrotnað. Það var hræðileg vika sem tók við en ég hef verið að skána jafnt og þétt en þetta hefur tekið tíma og auðvitað hefur ekki verið riðið mikið út á meðan.

|

Still alive
Fór á facebook og ætlaði að láta það duga í staðinn fyrir að blogga. Það eru jú allir á facebook. Það er bara of takmarkað tjáningarform. Ætla því að reyna að endurvekja bloggið mitt. Lofa engum kraftaverkum en ég reyni.

|