Friday, August 12, 2011

Allt úrskeiðis
Það gekk ekkert upp þetta sumarið.
Strákurinn sem ætlaði að taka Glaum og reyna að sýna hann slasaði sig og gat ekki tekið hann. Það þýddi lítið að finna einhvern annan því að Glaumur missti skeifu og braut upp úr hófnum á sér og þar með dóu allir draumar um síðsumarsýningu. En stráknum líst ágætlega á Glaum og stefnan að hann taki hann í vetur og sýni næsta vor. Hann var ekki jafn hrifinn af Gabríel og er allt svolítið í lausu lofti með hann. Það kemur í ljós.
Gleði, systir fyrrnefndra drengja, var ekki að beita vinstri afturfæti rétt og fór í alsherjarskoðun og myndartöku en ekkert kom í ljós. En þegar haldið var áfram að þjálfa hana fór hún að verða hölt. Hún var skoðuð aftur en ekki var hægt að skera úr um hvað væri að hrjá hana. Þannig að hún var sett út í frí og verður skoðuð aftur í haust.
Embla kom inn í staðinn og fór í þjálfun. Hún er ekkert til að hrópa húrra fyrir. Daman er frekar löt. Hún er reyndar circa 100 kílóum of þung, það hjálpar víst ekki. Hún er samt fallegri og ganghreinni en móðir sín. Við sjáum hvað gerist í vetur.
Hefring er reyndar búin að vera í þjálfun í allt sumar og gengur vel. Hún er bara efnileg daman. Gangur laus og fótalyfta góð. Hún virðist reyndar vera klárhryssa. Ég hélt að hún yrði alhliða og fyrir svona dýrkanda alhliðahrossa eins og mig eru þetta pínu vonbrigði. En ef hún fær 9 fyrir tölt þá kvarta ég ekki.
Ljósið í myrkrinu er samt að það fæddust bara hryssur þetta vorið. Þær hafa fengið nöfnin Hrafnhetta, Ísól, Þyrnirós og Garún.

|